Riddaralögreglan heimilar hijab

Lögreglukonum í kanadísku riddaralögreglunni verður heimilað að bera hijab.
Lögreglukonum í kanadísku riddaralögreglunni verður heimilað að bera hijab. BAZUKI MUHAMMAD

Kanadíska riddaralögreglan mun leyfa kvenkyns lögreglufulltrúum sem þurfa að klæðast einkennisbúningi að bera höfuðklút eða „hijab.“ Talsmaður yfirvalda í Kanada segir breytinguna eiga að endurspegla fjölbreytileika kanadísks samfélags og um leið laða fleiri múslimskar konur í lögregluna.

Einkennisbúningarnir, sem þekktir eru fyrir fyrirferðarmikla hatta, hafa lítið sem ekkert breyst síðan þeir voru kynntir til sögunnar fyrir um 200 árum en búningurinn á rætur sínar að rekja aftur til 19. aldar.

Aðeins um fimmtungur starfsmanna riddaralögreglunnar eru konur en óljóst er hversu marga þessi breyting mun hafa áhrif á. Þrjár gerðir höfuðklúta voru prófaðar áður en einn þeirra varð fyrir valinu og þótti hentugasti kosturinn til lögreglustarfa að því er fram kemur í kanadískum fjölmiðlum. Samkvæmt dagblaðinu La Presse í Montreal er bæði auðvelt og fljótlegt að losa klútinn af og á hann ekki að trufla lögreglufulltrúa við störf sín.

Stefnubreytingin var kynnt fyrr á þessu ári en þó ekki að beiðni lögreglufulltrúa. Um 30 fulltrúar höfðu þó óskað eftir að slakað yrði á reglum um einkennisklæðnað á trúar- og menningarlegum forsendum undanfarin tvö ár en í flestum þeim tilfellum var um að ræða karlkyns lögreglufulltrúa sem vildu láta sér vaxa skegg.

Riddaralögreglan er þar með þriðja lögregluembættið í Kanada til að bæta við möguleikanum á að bera höfuðklút á eftir lögreglunni í Toronto og Edmonton. Lögreglan í Svíþjóð, Noregi og í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna hefur tekið upp svipaða stefnu og þá hefur borgarlögreglan í London heimilað höfuðklút í yfir 10 ár.

Frétt BBC.

Rauðir jakkar og stórir hattar eru helstu einkenni einkennisbúnings kanadísku …
Rauðir jakkar og stórir hattar eru helstu einkenni einkennisbúnings kanadísku riddaralögreglunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert