Sat saklaus í fangelsi í 25 ár

Anthony Wright var tvítugur þegar hann var handtekinn fyrir morð …
Anthony Wright var tvítugur þegar hann var handtekinn fyrir morð og nauðgun á 77 ára gamalli nágrannakonu sinni árið 1991.

Maður frá Fíladelfíu  í Bandaríkjunum hef­ur nú verið látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið saklaus inni í 25 ár. Anthony Wright, sem er 44 ára gamall, var dæmdur í fangelsi árið 1991 fyrir nauðgun og morð á 77 ára gamalli nágrannakonu sinni. Mál hans var tekið fyrir að nýju eftir að nýtt DNA próf var framkvæmt, og komst kviðdómur að því í gær að hann væri saklaus. 

Sam­tök­in The Innocence Proj­ect, sem vinn­a að því að bera sak­ir af fólki sem hef­ur verið rang­lega dæmt í fang­elsi, höfðu kallað eft­ir því að fram­kvæmd yrðu ný DNA próf í mál­inu. Þá kom í ljós að sæði sem var notað til þess að sak­fella Wright hafi ekki verið úr hon­um held­ur öðrum karl­manni.

Í ljós kom að sæðið var úr fyrrum krakkfíkli sem lést í fangelsi í Suður-Karólínu fyrir nokkrum árum síðan. Konunni hafði verið nauðgað og hún stungin tíu sinnum þegar hún fannst látin á heimili sínu.

„Þetta er besti dagur lífs míns“

Fyr­ir utan fang­elsið mátti sjá um fimmtán ættingja Wright, þar á meðal föður hans, 28 ára gamlan son hans og barnabarn hans. „Þetta er stórkostlegt. Þetta er besti dagur lífs míns,“ sagði Wright í samtali við fjölmiðla eftir dómsuppkvaðninguna. 

Verjandi Wright sagði í lokaorðum sínum fyrir dómnum í gær að ekki væri hægt að sýna betur fram á sakleysi hans en með DNA prófunum. Saksóknari sagði hins vegar að DNA prófin sönnuðu bara að Wright hefði ekki framið glæpinn einn, en ekki að hann væri saklaus. Þá sagði Wright kviðdómnum að hann hefði ekkert haft með málið að gera og væri saklaus maður. 

Þegar Wright var handtekinn á sínum tíma sagði hann að hann hefði brotist inn til konunnar til að stela af henni peningum sem hann hefði þurft fyrir eiturlyfjum. Eftir það hefði hann myrt hana. Hann dró játninguna síðar til baka og sagði hana hafa verið þvingaða fram af saksóknurum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert