Skaut flóttamann til bana

Serbneskir hermenn og lögreglumenn standa vaktina við landamæri landsins.
Serbneskir hermenn og lögreglumenn standa vaktina við landamæri landsins. AFP

Serbneska lögreglan handtók í gærkvöldi veiðimann sem skaut afganskan flóttamann til bana skammt frá landamærum Búlgaríu.

Sérsveit lögreglunnar var við eftirlit skammt frá bænum Pirot seint í gærkvöldi þegar sérsveitarmenn heyrðu skothvell og rákust síðan á hóp sex flóttamanna. Einn þeirra hafði verið skotinn í brjóstið, segir í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu. Fjórir veiðimenn voru þar skammt frá og var einn þeirra handtekinn grunaður um að hafa skotið flóttamanninn.

Flóttamaðurinn, sem var tvítugur að aldri, var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús, segir í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins. 

Eftirlit við landamærin.
Eftirlit við landamærin. AFP

Flóttamannaleiðin yfir Balkanskagann liggur í gegnum Serbíu og fóru hundruð þúsunda flóttamanna frá Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku þessa leið á flótta sínum til Vestur-Evrópu. Í mars var leiðinni lokað en þrátt fyrir það reyna enn einhverjir að komast þessa leið í litlum hópum, oft með aðstoð frá smyglurum.

AFP


Frá því um miðjan júlí hafa hermenn og lögreglumenn tekið þátt í sameiginlegum aðgerðum við að reyna að stöðva för fólks um landamæri Serbíu. Frá þeim tíma hafa yfir 3.700 flóttamenn verið stöðvaðir þar sem þeir reyndu að komast með ólöglegum hætti inn í landið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert