Skipti sjö sinnum um flokk

Hin mörgu andlit Donalds Trump eru sögð birtast í nýrri …
Hin mörgu andlit Donalds Trump eru sögð birtast í nýrri bók blaðamanna Washington Post um hann. AFP

Donald Trump flakkaði sjö sinnum á milli stjórnmálaflokka frá 1999 til 2012 áður en hann gerðist forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri bók sem blaðamenn Washington Post hafa gefið út um Trump sem segir gott að eignast vini ætli menn í framboð.

Bókin ber titilinn „Trump afhjúpaður: Bandarísk vegferð metnaðar, sjálfsálits, peninga og valda“ (e. Trump Revealed: An American Journey of Ambition, Ego, Money and Power). Hún er afurð vinnu hóps blaðamanna blaðsins yfir þriggja mánaða tímabil fyrr á þessu ári og byggist meðal annars á tuttugu klukkustunda löngum viðtölum sem þeir áttu við forsetaframbjóðandann.

Ýmissa grasa kennir í bókinni sem er 431 síða að lengd og er hún sögð lýsa mismunandi hliðum Trump sem glaumgosa, kvennabósa og athafnamanns sem var fljótur að láta sig hverfa þegar í harðbakkann sló.

Þegar blaðamennirnir báru gögn um að hann hefði skipt sjö sinnum um stjórnmálaflokk á þrettán ára tímabili undir Trump sagði hann það hafa verið nauðsynlega tækifærisstefnu.

„Ég held að það hafi haft meira að gera með raunsæi vegna þess að ef þú ætlar að bjóða þig fram þyrftirðu að hafa eignast vini,“ sagði Trump við blaðamennina.

Frambjóðandi Repúblikanaflokksins vildi hins vegar ekki svara því hvort hann hefði nokkru sinni kosið andstæðing sinn Hillary Clinton í ljósi þess að hann hélt fjáröflunarviðburð fyrir hana og gaf sex sinnum í kosningasjóð hennar á tíu ára tímabili.

„Mér fannst það vera skylda mín að láta mér lynda við fólk, þar á meðal Clinton-hjónin,“ er Trump hafa sagður eitt sinn.

Kjörorð Trump í kosningabaráttunni hefur verið „Gerum Bandaríkin glæst aftur“.
Kjörorð Trump í kosningabaráttunni hefur verið „Gerum Bandaríkin glæst aftur“. AFP

Ljáði dæmdum fjársvikara nafn sitt

Blaðamennirnir ræddu einnig við einstaklinga sem telja sig hafa verið svikna í fasteignaviðskiptum á Flórída. Eftir að þeir fóru með málið fyrir dómstóla komast þeir að raun um að Trump bara litla sem enga ábyrgð á verkefninu og þáði aðeins fé fyrir að ljá því nafn sitt.

Einn af raunverulegu aðstandendum viðskiptanna hafði hins vegar áður játað sekt í fjársvikamáli sem tengdist mafíufjölskyldum. Trump segist varla hafa þekkt manninn sem hann þó leyfði að nota nafn sitt í viðskiptunum.

Sala á vítamínum er sögð hafa borið einkenni pýramídasvindls og umdeild fatalína sem Trump seldi var aðallega framleidd í verksmiðjum í láglaunalöndum þrátt fyrir að í kosningabaráttunni hafi Trump gagnrýnt að fyrirtæki flytji framleiðslustörf út fyrir Bandaríkin.

Trump staðfesti við höfunda bókarinnar að saga um að hann hafi fengið leigjendur sem hann vildi losna við í einum skýjakljúfa sinna til að fara með því að segja þeim að þeir þyrftu að ganga niður sextíu hæðir til að komast í vinnuna því lyfturnar væru hættar að virka væri sönn.

Spjallþáttastjórnandinn Larry King þuklar á hári Trump. Auðkýfingurinn hefur átt …
Spjallþáttastjórnandinn Larry King þuklar á hári Trump. Auðkýfingurinn hefur átt í sérstæðu sambandi við fjölmiðla. Reuters

Sá Lærlinginn sem stökkpall í forsetaframboð

Bókin lýsir einnig sambandi Trump við fjölmiðla sem hann er sagður hafa leikið á eins og fiðlu. Þannig bauð hann blaðamanni viðtal í persónu á sjúkrahúsinu daginn sem dóttir hans Tiffany fæddist.

Svo virðist sem að auðkýfingurinn hafi séð um flest samskipti við fjölmiðla sjálfur og stundum gengið svo langt að þykjast vera talsmaður fyrirtækis síns undir nöfnunum John Miller og John Barron. Aðstoðarkona hans til margra ára safnaði svo öllu því sem var sagt og skrifað um hann og byrjaði hann daginn á því að lesa samantekt hennar.

Þar er einnig haft eftir Jim Dowd, framkvæmdastjóra NBC-sjónvarpsstöðvarinnar, að Trump hafi litið á sjónvarpsþáttinn Lærlinginn (e. The Apprentice) sem tækifæri til að bjóða sig fram til forseta.

„Hann sagði mér: „Ég á fasteignirnar og hótel og golfið. Fólk þekkir nafnið mitt en ég hef ekki ást og aðdáun bandarísku millistéttarinnar.“ Núna gerði hann það. Það var brúin að [forsetaframboðinu],“ segir Dowd í bókinni.

Donald Trump eltur af tveimur uppvakningum þegar hann mætti til …
Donald Trump eltur af tveimur uppvakningum þegar hann mætti til að velja þátttakendur í sjónvarpsþættinum Lærlingnum. Reuters

Skildi eftir skilaboð sem „Baróninn“

Trump hefur ekki verið við eina fjölina felldur í kvennamálum. Hann er sagður hafa notað dulnefnið „Baróninn“ þegar hann skildi eftir skilaboð til Mörlu Maples á meðan hann var enn giftur Ivönu Trump. Sonur hans og Melaniu Trump, núverandi eiginkonu hans, heitir ennfremur Barron.

Þá er Trump sagður hafa beðið Melaniu um símanúmerið hennar þegar hann var á stefnumóti með annarri konu.

Frétt The Guardian af bókinni um Trump

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert