Slökkviliðsmaður lætur brennivarga heyra það

AFP

Sænskur slökkviliðsmaður hellir úr skálum reiði sinnar vegna ítrekaðra bílbruna í Malmö í sumar. Hann segist ekki kaupa bullið í fólki sem sakar þjóðfélagið um að bera ábyrgð á því að það kveikir í bílum.

Kaj Engelke, sem er slökkviliðsmaður í Malmö, hefur fengið nóg af brennuvörgum borgarinnar. Hann skrifaði opið bréf til ungra brennuvarga í Sydsvenskan á mánudag. Þar segist hann vilja segja brennuvörgum sem segja þjóðfélagið bera ábyrgð á vandamálum þeirra og reiðin brjótist út í því að kveikja í bílum.

Engelke segir að lífið hafi verið erfiðara þegar hann var að alast upp. „Barnæska mín var helvíti. Ég bjó við óöryggi, slæma heilsu, ótta, ofbeldi og peningaleysi. Það voru, samkvæmt ykkar sjónarmiðum, nægar ástæður til þess að taka ekki ábyrgð,“ skrifar hann.

Hann bætir við að hann hafi verið á svipuðum stað í lífinu og þeir og það sama eigi við marga starfsbræður hans. „Við kaupum ekki bullið í ykkur. Á sama tíma og þið veljið að eitra fyrir okkur þá leggjum við okkur eins hart fram og okkur er unnt til þess að aðstoða samfélagið sem við búum í svo fleiri geti haft það jafn gott og við. Svo þið getið haft það jafn gott og við,“ skrifar Engelke. 

Greininni hefur verið vel tekið og henni dreift víða á samfélagsmiðlum. Engelke segist hafa skrifað greinina þegar hann var argur út í ástandið en kveikt hefur verið fjölda bifreiða í borginni í sumar. Tók steininn úr á mánudag þegar vinnufélagi hans veiktist í vinnunni og hann hafi misst vini og starfsfélaga úr krabbameini vegna eiturefnanna sem þeir anda að sér við störf sín. 

Frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert