Stærsta loftfar heims skemmdist

Loftfarið Airlander 10 á flugi 17. ágúst síðastliðinn.
Loftfarið Airlander 10 á flugi 17. ágúst síðastliðinn. AFP

Flugstjórnarklefinn í stærsta loftfari heims skemmdist eftir slæma lendingu í öðru tilraunaflugi sínu. Enginn slasaðist, að sögn framleiðanda loftfarsins.

Hið 92 metra langa Airlander 10, sem er að hluta til þyrla og að hluta loftskip, brotlenti  á Cardington-flugvellinum í Bedfordskíri í suðausturhluta Englands í dag.

„Airlander skemmdist við lendingu í fluginu í dag,“ sagði í yfirlýsingu frá framleiðandanum, Hybrid Air Vehicles. „Allir áhafnarmeðlimir eru óhultir og enginn meiddist.“

Loftfarið var upphaflega hannað af bandarískum stjórnvöldum til eftirlits en hætt var við smíði þess vegna niðurskurðar.

Hybrid Air Vehicles kom farinu á loft og var fyrsta tilraunflugið farið 17. ágúst. Fyrirtækið telur að hægt verði að nota Airlander til eftirlits, samskipta og mögulega sem farþegafar fyrir árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert