„Ég er loksins venjulegur maður“

Hardison á blaðamannafundi í dag.
Hardison á blaðamannafundi í dag. AFP

„Nú er ég loksins venjulegur maður sem getur farið út að ganga án þess að fólk stari á mig.“ Þetta segir hinn 42 ára gamli Patrick Hardison, sem fékk nýtt andlit á síðasta ári eftir að hafa gengist undir umfangsmestu aðgerð sem framkvæmd hefur verið til að græða andlit á manneskju. 

Hardison tjáði sig um málið í dag, ári eftir að hafa gengist undir aðgerðina. Hann getur nú séð, borðað, heyrt og andað venjulega, sem hann gat ekki fyrir aðgerðina.

Hardison er fimm barna faðir og segir líf sitt hafa breyst til muna síðasta árið. Nú sé hann farinn að keyra aftur og geti sinnt fjölskyldu sinni að bestu getu. Áður fyrr hafi börn öskrað og hlaupið í burtu þegar þau sáu hann, en í dag sé hann eins og hver annar faðir. 

Hér má sjá hvernig Hardison leit út fyrir og eftir …
Hér má sjá hvernig Hardison leit út fyrir og eftir aðgerðina. AFP

Aðgerðin fór fram hinn 25. ágúst í fyrra og stóð yfir í 26 klukkustundir. Hún var framkvæmd í Lango­ne Medical Center við há­skól­ann í New York og kostaði um millj­ón Banda­ríkja­dala eða um 130 millj­ón­ir kr.

Har­di­son, sem starfaði sem slökkviliðsmaður í sjálf­boðastarfi, fékk m.a. nýtt höfuðleður, eyru og augn­lok. Líf­færa­gjaf­inn hét Dav­id Rodebaugh. Hann lést í reiðhjóla­slysi 26 ára að aldri. 

Har­di­son slasaðist al­var­lega þegar hann ætlaði að bjarga konu sem hann taldi að vera föst inni í brenn­andi húsi árið 2001. Har­di­son hlaut þriðja stigs bruna á öllu and­liti og höfuðleðri. 

Hann beið í rúmt ár áður en upp­lýs­ing­ar bár­ust um heppi­leg­an líf­færa­gjafa. Rodebaugh var í sama blóðflokki og Har­di­son auk þess sem hann var einnig ljós á hör­und og með ljóst hár. 

Hardison verður að taka sér­stök lyf út æv­ina sem koma í veg fyr­ir að ónæmis­kerfi lík­am­ans hafni and­litságræðslunni. 

Frétt mbl.is: Nýtt líf með nýju andliti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert