Farage leggur Trump lið

Vel fór á með Nigel Farage (t.v.) og Donald Trump …
Vel fór á með Nigel Farage (t.v.) og Donald Trump á kosningafundi þess síðarnefnda í MIssissippi í gærkvöldi. AFP

„Ég myndi ekki kjósa Hillary Clinton þó að ég fengi borgað fyrir það,“ sagði Nigel Farage, einn helsti hvatamaður að Brexit, á kosningafundi hjá Donald Trump í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Trump sagði að nái hann kjöri sem forseti fái Bandaríkin aftur „sjálfstæði“ líkt og Bretar hafi gert með Brexit. 

Farage hætti sem formaður Breska sjálfstæðisflokksins (Ukip) eftir að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní. Hann var mættur til Mississippi í gærkvöldi þar sem Trump fundaði með stuðningsmönnum sínum.

Trump kynnti Farage sem leiðtoga Ukip sem hafi staðið uppi í hárinu á Evrópusambandinu þrátt fyrir mikið mótlæti.

„Við náðum til fólksins sem hefur aldrei kosið á ævinni en trúði að með því að kjósa Brexit gæti það tekið aftur stjórn á landinu sínu, tekið aftur stjórnina á landamærum sínum og endurheimt stolt sitt og sjálfsvirðingu,“ sagði Farage við mannfjöldann.

Breska blaðið The Guardian segir að stuðningsmenn Trump hafi virst nokkuð hissa á því að Farage skyldi koma fram. Óformleg könnun fyrir fundinn hafi sýnt að átta af hverjum tíu höfðu aldrei heyrt á Farage eða Brexit minnst.

„Hann er frá Bretunum. Það er það eina sem ég veit,“ hefur blaðið eftir stuðningskonu Trump.

Sagði Clinton vera fordómafulla

Trump hélt annars uppteknum hætti á fundinum og skaut harkalega á andstæðing sinn, Clinton. Hann hefur undanfarið reynt á sinn hátt að biðla til svartra Bandaríkjamanna en kannanir sýna að auðkýfingurinn nýtur afar takmarkaðs stuðnings á meðal þeirra.

„Hillary Clinton er fordómafull og sér litað fólk aðeins sem atkvæði en ekki manneskjur,“ sagði Trump og fullyrðir The Guardian að heyra hafi mátt viðstadda taka andköf.

Þá hélt Trump áfram gagnrýni sinni á Clinton-sjóðinn sem Hillary og eiginmaður hennar Bill reka. Rannsókn AP-fréttastofunnar leiddi í ljós að meira en helmingur þeirra sem Clinton hitti sem utanríkisráðherra hafi styrkt sjóðinn.

„Hillary Clinton trúir ekki á að setja Bandaríkin í fyrsta sæti. Hún trúir á að setja styrktaraðila í fyrsta sæti og sérhagsmuni og þrýstihópa,“ sagði Trump en stuðningsmenn hann svöruðu með því að kyrja um að stinga ætti Clinton í fangelsi eins og þeir hafa gert reglulega í kosningabaráttunni.

Frétt The Guardian af baráttufundi Trump

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert