Leita í örvæntingu í húsarústum

Alls hafa 247 fundist látnir eftir jarðskjálftann á Ítalíu í gær, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í morgun. Björgunarfólk reynir í örvæntingu að grafa í rústum húsa í þeirri von að finna einhverja á lífi í fjallaþorpum sem jöfnuðust við jörðu.

Hundruð slösuðust í skjálftanum, sumir alvarlega, og aðrir eru fastir undir rústunum. Enn er óljóst hversu margir þeir eru.

Hryllingur blasir við í bæjunum Accumoli og Amatrice á Mið-Ítalíu. Bæjarstjóri Amatrice segir að aðeins fjórðungur bæjarins standi enn. Að sögn bæjarstjóra Accumoli er ekki lengur hægt að búa í neinu af húsum bæjarins. Þar berjast björgunarmenn við tímann og var unnið í alla nótt við að leita að fólki í húsarústum.

Jarðskjálftinn mældist 6,2 stig og varð á 10 km dýpi, að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar USGS. Jarðvísindastofnun Ítalíu sagði hins vegar að skjálftinn hefði verið 6,0 stig og orðið á um fjögurra kílómetra dýpi.

„Jarðskjálftar eru nokkuð algengir í þessum hluta Mið-Ítalíu,“ hefur AFP eftir Bill McGuire, heiðursprófessor í jarðvísindum við University College í London (UCL). Hann segir að jarðskjálftarnir á þessum slóðum hafi oft verið grunnir og valdið miklu tjóni.

Skjálftinn í fyrrinótt var sá öflugasti á Ítalíu frá árinu 2009 þegar 309 manns létu lífið í borginni L'Aquila og nágrenni. Um 60.000 manns misstu heimili sitt í skjálftanum sem mældist 6,3 stig.

Um 95.000 manns fórust í mannskæðasta jarðskjálftanum í sögu Ítalíu 28. desember 1908 í Reggio di Calabria og á Sikiley. Næstmannskæðasti skjálftinn varð í bænum Avezzano í Abruzzo-héraði 13. janúar 1915 þegar 32.000 manns létu lífið.

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, varar við því að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar eftir að hann sótti Amatrice heim. Búið er að koma upp tjaldbúðum á skjálftasvæðunum og gistu hundruð í tjöldum í kaldri ágústnóttinni skammt frá heimilum sínum því mörg húsanna þykja ekki nægjanlega örugg ef fleiri skjálftar ríða yfir. 

Alþjóðlegar björgunarsveitir voru þó ekki kallaðar til aðstoðar og segir Friðfinnur Fr. Guðmundsson, sem situr í framkvæmdastjórn Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar, að Ítalir séu vel í stakk búnir til að takast á við afleiðingar jarðskjálfta. „Þeir eru með mjög góðar almannavarnir. Helsta vandamálið var að komast á staðinn og um bæina út af braki sem hafði fallið á vegina,“ segir Friðfinnur.

Engar upplýsingar hafa borist um að Íslendingar hafi slasast í jarðskjálftanum, en Amatrice er þekktur ferðamannabær og vinsæll áfangastaður íbúa Rómar. Margir gestir voru í bænum þegar jarðskjálftinn varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert