Deilt um bann við baðfötum sem hylja líkamann

Æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands tók í gær fyrir beiðni um að ógilda umdeilt bann sem sett hefur verið í um þrjátíu bæjum við því að klæðast sundfatnaðinum búrkíní.

Frönsk mannréttindasamtök höfðu áfrýjað úrskurði undirréttar í Nice sem staðfesti bann við búrkíní í bænum Villeneuve-Loubet, skammt vestan við borgina. Hann var á meðal fyrstu bæjanna sem bönnuðu sundfatnaðinn. Úrskurður stjórnsýsludómstólsins hefur fordæmisgildi fyrir hina bæina og er hans að vænta í dag, að sögn franskra fjölmiðla.

Undirrétturinn í Nice komst að þeirri niðurstöðu á mánudag að bannið við búrkíní væri „nauðsynleg og viðeigandi“ ráðstöfun til að tryggja allsherjarreglu eftir mannskæð hryðjuverk sem íslamistar hafa framið í Frakklandi, m.a. í Nice 14. júlí þegar 85 manns létu lífið. Búrkíní-fatnaðurinn væri einnig „líklegur til að misbjóða trúarsannfæringu eða vantrúarsannfæringu annarra sem nota ströndina“. Aðrir á baðströndinni gætu litið á sundfatnaðinn sem „ögrun“ og hann gæti því aukið „spennuna í samfélaginu“.

Má vera í blautbúningi?

Orðalag bannsins þykir óljóst og fólk á baðströndunum veit ekki hvort það nái aðeins til búrkíní, eða hvort bannað sé að hylja höfuðið eða vera í hvers konar klæðnaði sem hylur líkamann. Fréttaveitan AFP segir að konum hafi verið gert að greiða sekt fyrir að klæðast öðrum fatnaði, sem hylur líkamann, á baðströndum og hefur eftir franskri konu að hún hafi verið sektuð á strönd í Cannes fyrir að klæðast leggingsbuxum, blússu og höfuðklút. Ekki hefur komið fram hvort bannað sé að vera í blautbúningi sem líkist mjög búrkíní.

Á ríkið að skipta sér af klæðaburði?

Mannréttindasamtök, stjórnmálamenn í Sósíalistaflokknum, franskir femínistar og fleiri hafa gagnrýnt bannið, sem hefur vakið umræðu um veraldarhyggjuna í frönskum lögum, réttindi kvenna og samlögun múslíma. Þeir sem gagnrýna bannið segja að yfirvöld eigi ekki að skipta sér af klæðaburði kvenna, hvorki að banna þeim að klæðast ákveðnum fatnaði né að skylda þær til þess eins og talibanar í Afganistan og fleiri öfgasamtök íslamista hafa gert.

Mikið líf færðist í umræðuna á samfélagsmiðlum þegar birtar voru myndir af konu sem var umkringd fjórum vopnuðum lögreglumönnum á baðströnd í Nice og sást afklæðast blússu fyrir framan þá. Talsmaður borgarstjórans í Nice neitaði því að konan hefði verið neydd til að fara úr blússunni og sagði hana hafa afklæðst flíkinni til að sýna lögreglumönnunum sundföt sem hún var í utan yfir leggingsbuxum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert