Clinton fær samantekt um njósnir

Clinton heilsar stuðningsmönnum sínum fyrr í vikunni.
Clinton heilsar stuðningsmönnum sínum fyrr í vikunni. AFP

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata, fékk í dag samantekt um helstu málefni til rannsóknar hjá bandarískum njósnastofnunum. Samantektina fá aðeins þeir tveir frambjóðendur sem líklegastir eru til að hljóta kosningu í forsetaembættið og er henni ætlað að búa þá undir þá ábyrgð sem fylgir þessari æðstu valdastöðu landsins.

Bílalest Clinton nam staðar fyrir utan skrifstofur alríkislögreglunnar FBI í White Plains í New York klukkan níu að staðartíma, eða klukkan eitt eftir hádegi að íslenskum tíma.

Yfirmaður njósnamála skipuleggur fundina með frambjóðendunum, ekki FBI, heldur er notast við skrifstofur þeirra þar sem þær búa yfir öruggum fundarherbergjum.

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, var viðstaddur álíka fund 17. ágúst í New York. Hefð fyrir fundum sem þessum á rætur sínar að rekja til ársins 1952, í forsetatíð Harry S. Truman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert