„Þorpsklukkurnar munu hringja á ný“

Harmi þrungnir Ítalir syrgðu vini og ættingja í jarðarför sem haldin var í dag fyrir tugi þeirra sem létust í jarðskjálftanum fyrr í vikunni. Þjóðarsorg ríkir í landinu en nærri þrjú hundruð manns eru látnir eftir náttúruhörmungarnar.

Forsetinn Sergio Mattarella, forsætisráðherrann Matteo Renzi og aðrir leiðtogar voru á meðal hundruða syrgjenda í íþróttahöll í bænum Ascoli Piceno. Höllinni hefur tímabundið verið breytt í bænastað fyrir jarðarfarir flestra þeirra sem létust í fjallaþorpunum Arquata del Tronto og Pescara del Tronto.

Hundruð til viðbótar stóðu hljóð fyrir utan og hlýddu á athöfnina með aðstoð hátalara, á meðan ástvinir þeirra látnu sátu inni, við hlið blómskrýddra kistna, margir hverjir óhuggandi.

Fólk faðmaði þá hvert annað að sér þegar Giovanni D'Ercole, biskupinn í Ascoli, bað viðstadda um að missa ekki trúna.

„Ekki vera hrædd við að öskra af sorg og þjáningu, en ekki missa hugrekkið,“ sagði biskupinn.

„Saman munum við endurbyggja hús okkar og kirkjur, og sameinuð munum við umfram allt blása aftur lífi í samfélag okkar [...] þorpsklukkurnar munu hringja á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert