„Allir múslimar eru hryðjuverkamenn“

París.
París. AFP

Myndskeið, þar sem veitingahúsaeigandi neitar að þjónusta tvær múslimskar konur, hefur vakið mikla reiði í Frakklandi og áköll eftir mótmælum. Á myndskeiðinu, sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlum, sést maðurinn segja við konurnar: „Hryðjuverkamenn eru múslimar og allir múslimar eru hryðjuverkamenn.“

Atvikið átti sér stað á veitingastaðnum Le Cenacle í Tremblay-en-France á laugardagskvöld. Tremblay-en-France er eitt úthverfa Parísarborgar.

Á sunnudag baðst maðurinn afsökunar þegar hópur safnaðist saman fyrir utan veitingastaðinn. Hann sagðist hafa gengið of langt vegna þess ágreinings sem nú stendur yfir í landingu vegna búrkínía og vegna þess að vinur hans hefði látist í árásinni á Bataclan-tónleikahúsið í nóvember sl.

Lögregluyfirvöld rannsaka nú atvikið og þá hefur ráðherrann Laurence Rossignol óskað eftir því að Dilcra, stofnun sem hefur eftirlit með kynþáttafordómum, taki það til rannsóknar sömuleiðis.

Umrætt myndskeið virðist hafa verið tekið af annarri konunni sem maðurinn neitaði að afgreiða. „Við viljum ekki vera þjónað af rasista,“ segir önnur konan. „Rasistar drepa ekki fólk,“ hreytir maðurinn í hana. „Ég vil ekki fólk eins og ykkur á staðnum mínum. Punktur.“

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert