Stjórnvöld banna Miss Bim-Bim

Auglýsing fyrir Miss Bim-Bim.
Auglýsing fyrir Miss Bim-Bim.

Stjórnvöld í Búrkína Fasó hafa bannað árlega fegurðarsamkeppni þar sem sú kona sigrar sem hefur stærsta afturendann. Ákvörðunin var tekin eftir að auglýsingar fyrir keppnina voru harðlega gagnrýndar á samfélagsmiðlum.

Auglýsingarnar fyrir Miss Bim-Bim sýndu tvær konur með afar föngulega afturenda og þóttu til marks um verulega kvenfyrirlitingu.

„Það er hlutverk okkar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að skaða ímynd kvenna,“ sagði ráðherrann Laure Zongo í yfirlýsingu. Sagði hún að gagnrýnin í netheimum hefði orðið til þess að hún ákvað að grípa inn í.

Skipuleggjandi keppninnar, Hamado Doambahe, sagði hana miða að því að stuðla að jákvæðri sjálfsímynd afrískra kvenna og hvetja hönnuði til að nota hefðbundinn afrískan klæðnað.

Keppnir á borð við Miss Bim-Bim eru haldnar í öðrum ríkjum Vestur-Afríku. Samtök sem berjast fyrir réttindum kvenna hafa blendnar tilfinningar gagnvart þeirri tilhneigingu í afrískum kúltúr að upphefja stærri líkama en þykja eftirsóknarverðir annars staðar.

Á sama tíma og þau fagna því að annars konar líkamar en þeir sem tískuðinaðurinn fókusar á séu upphafðir fordæma þau að það tíðkist yfir höfuð að menn dæmi kvenlíkamann.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert