16 ára ákærð fyrir morðtilraun

AFP

Ríkissaksóknari Þýskalands hefur ákært sextán ára gamla stúlku sem stakk lögreglumann á lestarstöð í Hannover í febrúar. Stúlkan, Safia S., var ákærð fyrir morðtilraun, alvarlega líkamsárás og að styðja erlend hryðjuverkasamtök. Stúlkan, sem er þýsk-marokkósk, er fylgjandi vígasamtakanna Ríkis íslams.

Auk þess hefur saksóknari ákært 19 ára gamlan mann, sem er þýsk-sýrlenskur, Mohamad Hasan K., fyrir að hafa ekki tilkynnt að Safia S. hygðist fremja árás.

Safia var fimmtán ára gömul þegar hún stakk lögreglumann sem var við eftirlit á lestarstöðinni. Hún hefur verið í varðhaldi síðan hún framdi árásina í febrúar sl. Að sögn saksóknara virðist hún hafa öfgavæðst í nóvember í fyrra. 

Í janúar fór hún til Istanbúl í Tyrklandi þar sem hún átti að hitta tvo liðsmenn Ríkis íslams og áttu þeir að aðstoða hana við að komast til Sýrlands. En ekkert varð af því þar sem móðir hennar sótti hana og fór með hana heim til Þýskalands. Liðsmenn samtakanna fengu stúlkuna þess í stað til þess að fremja hryðjuverk í heimalandinu og deyja píslarvættisdauða.

Safia greindi Mohamad K. frá áætlunum sínum en hann lét undir höfuð leggjast að greina lögreglu frá þessu. 

Lögreglumaðurinn hlaut lífshættulega áverka þegar hún stakk hann á lestarstöðinni en það tókst að bjarga lífi hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert