Guterres líklegasti arftaki Ban Ki-moon

Antonio Guterres er talinn líklegastur til að vera valinn sem …
Antonio Guterres er talinn líklegastur til að vera valinn sem nýr aðalritari Sameinuðu þjóðanna. AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Portúgal, Antonio Guterres, er talinn líklegasti arftaki Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, en Ban mun láta af störfum eftir 10 ára setu hjá samtökunum um næstu áramót. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem 15 þjóðir skipa, hefur undanfarið skoðað mögulega frambjóðendur og fór þriðja umferð þeirrar skoðunar fram í dag. Fær hver frambjóðandi atkvæði frá hverju landi öryggisráðsins hvatningu, öftrun eða hlutlaust.

Guterres fékk í þriðju umferðinni 11 hvatningar, þrjár aftranir og eitt land var hlutlaust. Hefur Guterres undanfarin 10 ár starfað sem flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, en hann er 67 ára gamall.

Á eftir Guterres í þriðju umferðinni í dag var utanríkisráðherra Slóvakíu, Miroslav Lajcak, en hann fékk níu hvatningar á móti fimm öftrunum. Diplómatar í öryggisráðinu sem AFP-fréttastofan ræddi við segja að þrátt fyrir það sé Guterres langlíklegastur til að taka við embættinu.

Öryggisráðið mun að lokum koma með úrtökulista yfir frambjóðendur sem lagður verður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, líklega í október, en þar mun kosning um arftaka Ban fara fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert