Ítalir reisa 2.500 manna kofahverfi

Frá tjaldbúðum sem slegið hefur verið upp til að hýsa …
Frá tjaldbúðum sem slegið hefur verið upp til að hýsa fólk sem flýja hefur þurft heimili sín vegna skjálftans. AFP

Ítölsk yfirvöld hyggjast byggja mikinn fjölda viðarkofa til þess að hýsa u.þ.b. 2.500 manns sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum á miðvikudag. Frá þessu er greint á vef BBC en tæplega 300 manns létust í skjálftanum.

Í fréttinni kemur fram að fermetraverðið sé í kringum 1.400 evrur á fermetra og áætlaður kostnaður við 40 fm kofa því um 55 þúsund evrur eða jafnvirði rúmlega sjö milljóna króna. 

Kofarnir eru dýrari en gámaeiningar eða tjöld, en yfirvalda hefur beðið sú áskorun að sjá fólkinu fyrir húsnæði áður en veturinn skellur á en hann getur orðið mjög kaldur í Amatrice, litlum fjallabæ sem varð einna verst úti í skjálftanum, og svæðinu í kringum bæinn.

Sjkálftinn skildi eftir sig mikla eyðileggingu í smábænum Amatrice sem …
Sjkálftinn skildi eftir sig mikla eyðileggingu í smábænum Amatrice sem varð einna verst úti. AFP

BBC greinir frá því að margir þeirra sem misstu heimili sín í skjálftanum kjósi að sofa í bílum sínum frekar en tjöldum til þess að vera nálægt húsum sínum af ótta við þjófnað. 

Kofarnir eiga að rísa á næstu þremur mánuðum en Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, fundaði í gær með einum færasta arkitekt Ítalíu, Renzo Piano, vegna verkefnisins. Þá greinir BBC frá því að fólkinu verði komið fyrir tímabundið á hótelum þegar kólnar í veðri þangað til kofarnir verða tilbúnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert