Stjórnmálakonur sýknaðar af ákæru

Frá Árósum í Danmörku.
Frá Árósum í Danmörku. Aarhus.com

Tvær danskar stjórnmálakonur voru sýknaðar af ákæru um að hafa brotið lög um innflytjendur eftir að borgarfulltrúi í Árósum kærði þær fyrir að hafa hýst tvo afríska flóttamenn eina nótt í fyrra.

Maria Sloth er borg­ar­full­trúi En­heds­listen sem er banda­lag vinstri grænna (Rauð-græna banda­lagið) í Árósum. Hún og sambýliskona hennar, Anne Hegelund, veittu mönnunum tveimur húsaskjól eina nótt í september í fyrra þegar fjölmargir flóttamenn komu til Danmerkur. Þær keyptu einnig miða fyrir þá með ferju til Noregs daginn eftir.

Eftir að Sloth greindi frá þessu í dagblaði í Árósum kærði starfsbróðir hennar þær stöllur til lögreglu fyrir að hafa veitt fólki, sem var ólöglega í landinu, aðstoð.

Dómur féll í málinu á föstudag og var það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið færðar fullnægjandi sannanir fyrir því að þær hafi vísvitandi brotið lög. Eins benti dómarinn á að engar sannanir væru fyrir því að þær hefðu hýst flóttamennina aðrar en eigin orð Sloth í viðtalinu.

Sloth gagnrýnir útlendingalöggjöfina í Danmörku og segir að það sé mjög skrítið að í lögunum sé kveðið á um að það sé saknæmt að veita fólki aðstoð.

Frétt mbl.is: Ákærðar fyrir að veita fólki húsaskjól

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert