Tvö myrt í Noregi

Norska lögreglan – mynd úr safni.
Norska lögreglan – mynd úr safni. Af vef Wikipedia

Tvö eru látin og einn er alvarlega særður eftir skotárás í íbúð í norska bænum Kirkenes í nótt en lögregla var kölluð á staðinn um fjögurleytið vegna hávaða í íbúðinni.

Í frétt VG kemur fram að lögreglan hafi verið kölluð út rúmlega fjögur í nótt. Þegar hún kom á staðinn fann hún þrjár manneskjur með skotáverka. Fólkið tengist allt, samkvæmt fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum í Finnmörku, Morten Daae.

Kona var úrskurðuð látin á staðnum en tveir karlar voru fluttir alvararlega særðir á sjúkrahús. Annar þeirra var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsinu í nótt. Unnið er að rannsókn málsins en ekki er vitað hvað gerðist né heldur hvort fleira fólk hafi verið á staðnum. 

Daae segir í samtali við norska ríkisútvarpið, að tæknideild lögreglunnar sé í íbúðinni en enn sem komið er liggi ekki fyrir hvort eitthvert þeirra þriggja sem fundust særð í íbúðinni hafi hleypt af byssu. Það voru nágrannar sem höfðu samband við lögreglu í nótt vegna hávaða frá íbúðinni. Áfallahjálparteymi bæjarins hefur verið virkjað, segir í frétt NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert