Forsætisráðherra Grænlands bjargaði fólki úr sjónum

Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands.
Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands. Skjáskot/KNR

Forsætisráðherra Grænlands, Kim Kielsen, var fyrstur á vettvang þegar bátur sökk og annar bátur skemmdist eftir að þeir skullu saman á Ikerasassuaq nærri Qeqertarsuatsiaat í Grænlandi í gær.

Frá þessu greinir Kalaallit Nunaata Radioa í Grænlandi. Kemur þar fram að skömmu eftir að þjóðhöfðinginn kom að slysinu hafi tveir færeyskir þingmenn komið siglandi að slysstaðnum.  Jørgen Niclasen, þingmaður Fólkaflokksins, annar þingmannanna, sagði að þegar þeir hefðu verið komnir hefði annar báturinn verið sokkinn.

„Kim Kielsen mætti rétt á undan okkur á bátnum sínum. Þá var annar báturinn sokkinn og hinn lak,“ sagði Niclasen. „Kim Kielsen tók fólkið um borð í bátinn sinn og með því að taka saman höndum tókst okkur að draga úr lekanum með því að setja fyrir segldúk.“

Þeir drógu skemmda bátinn til Nuuk þar en þeir komu til hafnar heilu og höldnu seint í gærkvöldi. Allir fjórir sem voru um borð í bátunum tveimur komust frá slysinu heilir á húfi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert