Dönskum þingmönnum neitað um aðgang

AFP

Danskir þingmenn eru hættir við að heimsækja flóttamannamiðstöð á vegum ástralskra yfirvalda sem rekin er á Kyrrahafseyjunni Nauru. Ástæðan er sú að tveimur þingmönnum sem hafa gagnrýnt reksturinn var bannað að taka þátt í heimsókninni af áströlskum yfirvöldum.

Johanne Schmidt-Nielsen, þingmaður En­heds­listen sem er banda­lag vinstri grænna (Rauð-græna banda­lagið), og Jacob Mark, þingmaður Socialistik Folkeparti (SF), hafa gagnrýnt stjórnvöld í Canberra fyrir að senda hælisleitendur til eyjunnar og eins hafa þau gagnrýnt aðbúnaðinn þar. 

Schmidt-Nielsen segir að öll sendinefndin hafi ákveðið að hætta við heimsóknina eftir að ljóst varð að stjórnvöld í Ástralíu vildu ekki endurskoða ákvörðun um þau tvö fengju að heimsækja búðirnar. Í sendinefndinni eru þingmenn úr Jafnarmannaflokknum, Venstre og danska Þjóðarflokknum. 

„Það er algjörlega óásættanlegt og ólýðræðislegt og segir allt um ástandið á Nauru að þeim sem gagnrýna er neitað um aðgang,“ segir Schmidt-Nielsen. Einum þingmanni til viðbótar, sem hafði ekki gagnrýnt búðirnar, Naser Khader, þingmanni Íhaldsflokksins, var einnig synjað um að heimsæja búðirnar. Í dönskum fjölmiðlum er talið að ástæðan sé sú að umsókn hans hafi borist of seint en Schmidt-Nielsen telur að arabískt nafn hans hafi skipt máli.

Frétt Berlingske

Skýrslan aðeins toppurinn á ísjakanum

Flutt nauðug á eyjuna og brotið á þeim

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert