Ellefu þúsund er enn saknað

Sjálfboðaliðar Rauða krossins að störfum.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins að störfum. AFP

Tæplega 11 þúsund manns er enn saknað síðan stríðin á Balkanskaganum voru háð á tíunda áratugnum, samkvæmt Alþjóðanefnd Rauða krossins.

Á meðan á stríðunum stóð hurfu tæplega 35 þúsund manneskjur, þar á meðal 22 þúsund frá Bosníu. Örlög um 70% þessa fólks eru núna kunn.

„Samt sem áður, rúmlega 20 árum eftir stríðin, lifa fjölskyldur um 10.700 manns sem enn eru ófundnir í óvissu yfir því hvað varð um ástvini sína,“ sagði í yfirlýsingu frá nefndinni.

Í tilefni af alþjóðlegum degi horfins fólks hvatti forseti Alþjóðanefndar Rauða krossins yfirvöld víða um heim til að binda enda á óvissuna með því að reyna að komast að því hvað varð um fólkið á Balkanskaganum.

„Það þarf að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að fólk hverfi og einnig þarf að safna saman öllum mögulegum upplýsingum þegar fólk hverfur. Stundum geta þessar upplýsingar haft svör í för með sér,“ sagði Peter Maurer.

Talið er að að minnsta kosti 130 þúsund manns hafi látið lífið í átökunum á Balkanskaganum á tíunda áratugnum. Flestir þeirra, um 100 þúsund manns, létust í stríðinu í Bosníu á árunum 1992 til 1995.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert