Heimilisofbeldi endaði í tvöföldu morði

Norski bærinn Kirkenes er skammt frá rússnesku landamærunum.
Norski bærinn Kirkenes er skammt frá rússnesku landamærunum. Af vef Wikipedia

Konan, sem var myrt af eiginmanni sínum í norska bænum Kirkenes aðfaranótt mánudags, hafði óskað eftir skilaði. Maðurinn skaut konu sína, Pimsiri Songngam sem var 37 ára gömul, og 12 ára gamlan son hennar, Petchngam, til bana og skaðaði sjálfan sig. Konan, sem er frá Taílandi, hafði ítrekað leitað í kvennaathvarf bæjarins vegna heimilisofbeldis af hálfu mannsins.

Lögregla fann mæðginin og manninn með skotáverka í íbúð í miðbæ Kirkenes um fimmleytið í fyrrinótt. Mæðginin létust bæði af völdum áverka sinna síðar um nóttina. Eiginmaðurinn, sem er 59 ára, var fluttur á sjúkrahús í Tromsø en hann er ekki í lífshættu og verður ákærður fyrir morð.

Frétt mbl.is: Mæðgin myrt í Noregi

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins er talið að ástæðan fyrir morðunum sé sú að konan hafi óskað eftir skilnaði við manninn. NRK fékk það staðfest hjá kvennaathvarfinu í Kirkenes, Norasenteret, að hún hafi haft samband við athvarfið nokkrum dögum áður. Vinkona konunnar staðfestir að fórnarlambið hafi ætlað að flytja í athvarfið í gær.

Í frétt VG er haft eftir nánum vini konunnar að hún hafi leitað til lögreglu vegna andlegs ofbeldis nýverið og eins hafi hann farið með henni í athvarfið í síðustu viku. Þrátt fyrir að hafa leitað til lögreglu var ekkert gert til þess að veita Songngam aðstoð. Hann sakar lögreglu um að sinna ekki starfi sínu.

Lögreglustjórinn í Finnmark, Ellen Katrine Hætta, segir í viðtali við NRK, að Songngam hafi neitað því að hafa verið beitt ofbeldi af hálfu eiginmanns síns og að hún hafi aðallega haft áhyggjur af lagalegri stöðu sonar síns í Noregi ef hún færi frá eiginmanni sínum. Þau gengu í hjónaband árið 2013 og Songngam er með norskan ríkisborgararétt.

Umfjöllun NRK

Umfjöllun VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert