Vilja breyta reglum um hælisvist

Súdanskir hælisleitendur sem dvelja í Jungle búðunum. Á hverju kvöldi …
Súdanskir hælisleitendur sem dvelja í Jungle búðunum. Á hverju kvöldi reynir stór hópur fólks að komast framhjá landamæraeftirlitinu og yfir til Bretlands. AFP

Innanríkisráðherrar Bretlands og Frakklands funda í dag um kröfu franskra sveitarstjórnarmanna um endurbætur á landamæraeftirliti Breta í Calais.

Xavier Bertrand, sem fer fyrir sveitarstjórnvöldum í héraðinu, sagði í gær að heimila þyrfti flóttamönnum og hælisleitendum í Calais að sækja um hæli í Bretlandi á meðan þeir dvelja enn í Frakklandi. Heimildamaður fréttavefjar BBC innan innanríkisráðuneytisins hafnar hins vegar alfarið að slíkar kröfur verði samþykktar.

Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, fundar með Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, í dag og segir talsmaður breska innanríkisráðuneytisins fundinn snúast um öryggismál.

Svo nefndur Touquet-samningur sem stjórnvöld landanna undirrituðu 2003 heimila breskum stjórnvöldum að framkvæma leit í farartækjum á meðan þau eru enn í Calais, til að reyna að hindra hælisleitendur í að komast til Bretlands. Frönskum stjórnvöldum er að sama skapi heimilt að standa fyrir sambærilegri leit í ökutækjum í Dover.

Bertrand greindi frá því á mánudag að hann vildi að hælisleitendur sem væru að reyna að komast til Bretlands sættu annars konar meðferð og að þeir hælisleitendur og flóttamenn sem nú hafast við í Jungle-flóttamannabúðunum í Calais, gætu sótt um hæli í Bretlandi á fyrirframskilgreindum stöðum í Frakklandi, frekar en að bíða þar til þeir væru komnir yfir til Bretlands.

Þeir sem fengju synjun á beiðni sinni um hælisvist yrðu í framhaldinu sendir aftur til síns heimalands.

Um það bil 9.000 manns dvelja nú í Jungle-flóttamannabúðunum og á hverju kvöldi reynir stór hópur fólks að komast framhjá landamæraeftirlitinu með því að fela sig um borð í ökutækjum sem fara um Ermarsundsgöngin til Bretlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert