Yfirmaður lögreglunnar rekinn

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó.
Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó. AFP

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, hefur rekið yfirmann alríkislögreglunnar í landinu, Enrique Galindo, vegna ásakana um að lögreglan hafi tekið af lífi að minnsta kosti 22 grunaða liðsmenn eiturlyfjahrings. Einnig er hún sökuð um að hafa drepið átta til viðbótar meðan á mótmælum stóð.

„Í ljósi nýlegra atburða og vegna tilmæla frá forseta okkar hefur lögreglustjóranum Enrique Galindo verið sagt upp störfum,“ sagði Miguel Angel Osorio Chong, innanríkisráðherra Mexíkó í yfirlýsingu.

Fyrr í mánuðinum birtu mannréttindasamtökin National Human Rights Commision skýrslu þar sem gefið var í skyn að lögreglan hafi að eigin geðþótta tekið af lífi 22 almenna borgara meðan á aðgerð gegn eiturlyfjahring stóð í maí í fyrra á búgaði í bænum Tanhuato í ríkinu Michoacan í vesturhluta Mexíkó.

Lögreglan ekur um götur ríkisins Jalisco í Mexíkó.
Lögreglan ekur um götur ríkisins Jalisco í Mexíkó. AFP

Aðgerðinni var beint gegn hinum valdamikla eiturlyfjahring Jalisco New Generation og var hún sú ofbeldisfyllsta síðan stjórnvöld skáru upp herör gegn eiturlyfjum í landinu árið 2006. Alls voru 42 grunaðir glæpamenn drepnir í byssubardaga, auk lögreglumanns.

Yfirmaður þjóðaröryggisstofnunar Mexíkó, Renato Sales, vísaði öllum ásökunum á bug og sagði að byssubardaginn hefði brotist út eftir að mennirnir hafi neitað að láta vopn sín af hendi.

Því voru mannréttindasamtökin ekki sammála. Þau sökuðu lögregluna um að hafa átt við sönnunargögn og mæltu með því að stjórnvöld rannsökuðu atburðinn og greiddu bætur til fjölskyldna fórnarlambanna.

Skotbardagi við kennara

Rannsókn stendur einnig yfir á þætti lögreglunnar í mótmælum kennara í bænum Nochixtlan. Þar létust átta, þar af sjö af völdum skotsára eftir að skotbardagi braust út á milli lögreglunnar og hins róttæka kennarasambands CNTE.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert