Skilaboð Mussolinis falin undir bautasteini

Textinn er grafinn undir bautasteini til minnis um Mussolini við …
Textinn er grafinn undir bautasteini til minnis um Mussolini við Foro Italico-íþróttamiðstöðina. Wikipedia

Texti sem er falinn undir bautasteini í Róm varpar nýju ljósi á fasistastjórn Benito Mussolinis og hvaða augum hann vildi vera litinn af komandi kynslóðum.

Textinn, sem er ritaður á latínu, var grafinn ásamt gullmyntum undir bautasteini Mussolinis í Foro Italico íþróttamiðstöðinni í Róm. Það voru tveir klassískir fræðimenn sem fundu textann, sem er lofræða um ris fasismans og afrek Mussolinis.

Þau dr. Bettina Reitz-Joosse og dr. Han Lamers eru fyrstu fræðimennirnir til að þýða og rannsaka ritið sem hafði að mestu legið gleymt frá því að það var grafið árið 1932 undir þessum 300 tonna minnisvarða um fasismann.

Ætlaður seinni tíma markhópi

Reitz-Joosse og Lamers púsluðu saman úr þremur lítt þekktum heimildum sem þau fundu á bóka- og skjalasöfnum í Róm, því sem þau telja vera nákvæma útgáfu textans sem liggur enn grafin undir bautasteininum.

„Textinn var ekki ætlaður þeim sem þá voru uppi,“ hefur fréttavefur BBC eftir Reitz-Joosse. „Bautasteinninn var meiri háttar sjónarspil, en það var ekkert sagt frá textanum. Hann var ætlaður seinni tíma markhópi.“

Á þessum tíma höfðu fasistar fundið fjölda fornleifa í Róm, útskýrir hún. „Þegar fasistarnir voru að grafa upp rústir þá datt þeim í hug að búa til frásögn af sínum eigin afrekum fyrir komandi kynslóðir.“

Benito Mussolini var forsætisráðherra Ítalíu frá 1922-43. Textinn sem liggur …
Benito Mussolini var forsætisráðherra Ítalíu frá 1922-43. Textinn sem liggur undir bautasteininum er lofræða um stjórnartíð hans. Wikipedia

Endurreisti landið með ofurmannlegri innsýn og seiglu

Textinn er um 1200 orða löng lofræða í þremur hlutum, sem skrifuð var af klassíska fræðimanninum Aurelio Giuseppe Amatucci.

Fyrsti hlutinn fjallar um afrek fasismans og ris Mussolinis til valda. Þar er Ítalíu lýst á barmi hörmunga í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og henni hafi einungis verið bjargað af Mussolini, „sem endurreisti landið með ofurmannlegri innsýn sinni og seiglu,“ segir dr. Lamers.

„Þar er dregin upp mynd af Mussolini sem eins konar nýrri gerð rómversks keisara, en honum er einnig lýst með biblíusamlíkingum sem bjargvætti ítölsku þjóðarinnar.“

Annar hlutinn snýr að æskulýðsstarfi Fasistahreyfingarinnar, en bautasteinninn var reistur við höfuðstöðvar þess og sá þriðji fjallar um byggingu Foro Italico, sem þá gekk undir nafninu Foro Mussolini, og gerð bautasteinsins. Textanum fylgir síðan minnispeningur með mynd af Mussolini með ljónsfeld á höfði.

Nokkuð var um að minnispeningar væru grafnir undir bautasteinum á endurreisnartímanum, en textafundurinn á sér hins vegar enga hliðstæðu að sögn fræðimannanna.

Reitz-Joosse telur höfund textans hafa skrifað hann á latínu til að skapa tengsl milli rómverska heimsveldisins og ris fasismans. Aukinheldur hafi fasistar reynt að endurvekja latínu og gera hana að alþjóðlegu tungumáli fasista, sem hluta af tilraunum þeirra til að koma á fót alþjóðlegri fasistahreyfingu í anda kommúnistahreyfingarinnar. „Þessar áætlanir gengu þó ekki eftir,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert