Venesúela afturkallar sendiherrann

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP

Stjórnvöld Venesúela hafa tilkynnt að sendiherra landsins í Brasilíu hafi verið afturkallaður og að stjórnmálatengsl landanna tveggja hafi verið fryst. Bregðast þau með þessum hætti við brottrekstri Dilmu Rousseff frá embætti forseta Brasilíu.

Utanríkisráðuneyti Venesúela hefur fordæmt þá ákvörðun þingsins að svipta Rousseff embættinu sem „þingræðislegt valdarán“.

Rousseff var fyrr í dag sakfelld, með 61 atkvæði þingmanna öldungadeildarinnar gegn 20, fyrir að hafa hagrætt ríkisreikningnum til að dylja vaxandi hallarekstur.

Kosningin batt enda á 13 ára valdatíð vinstrimanna í stærsta hagkerfi Rómönsku Ameríku, og svipti um leið Venesúela mikilvægum bandamanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert