Lögreglumaður í lífshættu

Danskur lögreglumaður að störfum. Mynd úr safni.
Danskur lögreglumaður að störfum. Mynd úr safni. AFP

Lögreglumaður er í lífshættu eftir að hafa orðið fyrir skoti í Kristjaníu í Kaupmannahöfn í kvöld. Danska lögreglan hefur verið með mikinn viðbúnað vegna málsins og segist vita hver árásarmaðurinn er. Hann gengur hins vegar enn laus. 

Lögreglan greindi frá stöðu málsins á blaðamannafundi sem var haldinn fyrir framan lögreglustöðina í Kaupmannahöfn skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma. 

Tilkynningar um skothvelli fóru að berast á samfélagsmiðlum um klukkan 21 að íslenskum tíma (kl. 23 að dönskum tíma) í kvöld, að því er segir á vef danska ríkisútvarpsins.

Sjónarvottar sögðust m.a. hafa séð lögreglumann borinn í sjúkrabörum inn í sjúkrabifreið. Skömmu síðar greindi lögreglan frá því á Twiter að tveir lögregluþjónar og einn almennur borgari hefðu orðið fyrir skoti. 

Annar lögreglumannanna hlaut skotsár á höfði. Hinn var skotinn í fótinn. Þriðji maðurinn hlaut svo skotsár á mjöðm en hann var á svæðinu fyrir tilviljun. Lögreglumaðurinn sem var skotinn í höfuðið liggur lífshættulega særður á sjúkrahúsi, en hann gekkst undir aðgerð.

Lögreglan lítur málið afar alvarlegum augum og leitar nú fjölmennt lið lögreglumanna að árásarmanninum. 

Lögreglan segir að atvikið hafi átt sér stað við venjubundið eftirlit í Pusherstreet í Kristjaníu. Árásarmaðurinn var með skotvopn falið innanklæða sem hann dró fram þegar lögreglumenn hugðust handtaka hann. 

Sem fyrr segir veit lögreglan hver maðurinn er og er allt kapp lagt á að finna hann. Danska lögreglan hefur einnig sett sig í samband við sænsku lögregluna reyni maðurinn að komast yfir til Svíþjóðar. 

Fyrri frétt mbl.is: Þrír særðir eftir skotárás í Kristjaníu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert