„Það verða engar búðir í Frakklandi“

Francois Hollande Frakklandsforseti.
Francois Hollande Frakklandsforseti. AFP

Francois Hollande Frakklandsforseti hefur heitið því að rífa sundur flóttamannabúðirnar í Calais og koma í veg fyrir að áþekkar búðir rísi annars staðar í Frakklandi. Hollande er undir mikilli pressu frá hægrimönnum um að taka á flóttamannavandanum með sannfærandi hætti.

„Það verða engar búðir í Frakklandi,“ sagði forsetinn, sem mun heimsækja „frumskóginn“ í Calais eftir tvö daga. Það verður í fyrsta sinn sem forsetinn upplifir með eigin augum ástandið í búðunum.

Áætlað er að 7.000-10.000 manns hafist þar við.

Hollande hefur einnig lofað því að reisa móttöku og „aðlögunarstöðvar“ fyrir flóttafólkið. Ríkisstjórnin hefur sagt að „frumskógurinn“ verði rifinn niður áður en vetur gengur í garð og er undirbúningur í fullum gangi.

Málefni flóttamanna hafa ekki verið hátt á listanum í fjögurra ára stjórnartíð Hollande en hann er nú kominn í harða samkeppni um athygli við Nicolas Sarkozy og Marine Le Pen, sem bæði sækjast eftir forsetaembættinu.

Þau hafa lagt mikla áherslu á öryggismál og föðurlandsást.

Hollande sagði í dag að tekið yrði á móti hælisleitendum með virðingu. Þeim sem yrði hafnað yrði fylgt úr landi. „Þetta eru reglurnar og þeir vita það.“

Forsetinn sagði að Frakkland myndi taka á móti 80.000 hælisleitendum á þessu ári.

Sarkozy vakti hörð viðbrögð í vikunni þegar hann sagði að þegar hælisleitendur hefðu fengið ríkisborgararétt, ættu þeir að lifa eins og Frakkar.

„Þegar þú ert orðinn Frakki þá eru Gallar forfeður þínir. „Ég elska Frakkland. Ég lærði sögu Frakklands. Ég sé sjálfan mig sem franskan“ er það sem þú átt að segja,“ sagði Sarkozy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert