Vilja fá súkkulaðikaramelluna aftur

Karamellumolinn með súkkulaðihjúp í brúna bréfinu verður ekki í Mackintosh …
Karamellumolinn með súkkulaðihjúp í brúna bréfinu verður ekki í Mackintosh dósinni um næstu jól. Wikipedia

Það eiga flestir sinn uppáhaldsmola af Mackintosh Quality Street konfektinu, sem hefur sett fastann svip á jólahald margra Íslendinga um áratugaskeið. Sú ákvörðun sælgætisframleiðandans Nestle, sem framleiðir Mackintosh, að fækka karamellumolunum í konfektdósunum um einn hefur mætt miklum mótmælum á samfélagsmiðlum.

Nestle tilkynnti nýlega að ekki verði lengur boðið upp á  Toffee Deluxe molann, karamellumola í súkkulaðihjúp sem er í dökkbrúnum umbúðum, þar sem kvartað hafi verið yfir að það væru of margar svipaðar tegundir af karamellumolum í dósinni.

Toffee Deluxe molinn er orðin tæplega aldargamall, en hann leit fyrst dagsins ljós árið 1919, þó hann hafi ekki ratað í konfektdósina fyrr en tveimur áratugum síðar. Þrjár gerðir af karamellumolum hafa verið í Mackintosh konfektdósunum, en auk Toffee Deluxe molans eru hringlaga karamellumoli og vindillaga karamellumoli sem einnig er með súkkulaðihjúp. Áfram verður boðið upp á tvær síðarnefndu gerðirnar.

Nýr moli með hunangskjarna, sem var búinn til sérstaklega í tilefni að áttræðisafmæli Elísabetar Bretadrottningar, mun hins vegar bætast við Quality-Street fjölskylduna.

Daily Telegraph hefur eftir talsmanni Nestle að Toffee Deluxe molann verði framleiddur áfram, en hann verði eftirleiðis aðeins fáanlegur í sérstökum karamellupakkningum.

Toffee Deluxe molinn er sköpunarverk súkkulaðiframleiðendanna John og Violet MacIntosh, en þau höfðu prófað sig áfram með að blanda saman harðri og mjúkri karamellu frá því um 1890. Þegar tilraunirnar báru svo loks árangur þá reistu þau fyrstu karamelluverksmiðju í heimi, að sögn Daily Telegraph.

Sú ákvörðun Nestle, sem hefur framleitt Mackintosh frá 1988, hefur mætt mikilli óánægju á samfélagsmiðlum og hafa m.a. sumir lýst því yfir í Twitter-skilaboðum að „búið sé að eyðileggja jólin“ og þá hefur einn aðdáandi molanna, Joanne Warner, stofnað undirskriftarsöfnun þar sem Nestle eru hvattir til að setja molann aftur í dósina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert