Birta myndband af drápinu á Scott

Úr myndavél í mælaborði lögreglubíls áður en Keith Scott var …
Úr myndavél í mælaborði lögreglubíls áður en Keith Scott var skotinn til bana af lögreglumanni á þriðjudag. AFP

Lögreglan í Charlotte hefur birt myndbandsupptökur af því þegar lögreglumaður skaut blökkumanninn Keith Scott á þriðjudag. Drápið á Scott leiddi til mótmæla og óeirða í Norður-Karólínu í vikunni. Upptökurnar virðast ekki sýna á afgerandi hátt hvað átti sér stað.

Mótmælendur höfðu krafist þess að lögreglan birti upptökur úr lögreglubíl og af líkamsmyndavél lögreglumannanna. Samkvæmt lýsingu lögreglunnar voru tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn að búa sig undir að framfylgja ótengdri handtökuskipun þegar Scott lagði við hliðina á þeim. Hann virtist vera að rúlla sér maríjúanasígarettu en lögreglumenn hafi ekki talið það forgangsmál að hafa afskipti af honum vegna þess.

Einn lögreglumannanna sagðist hins vegar hafa séð Scott halda byssu á lofti. Vegna byssunnar og eiturlyfjanna ákváðu lögreglumennirnir að grípa til aðgerða vegna almannaheilla. Þeir nálguðust því Scott í skotheldum vestum og skipuðu honum að leggja niður byssuna. Scott fór út úr bílnum og bakkaði frá honum. Einn lögreglumannanna hafi túlkað hreyfingar Scott á þann hátt að lögreglumönnunum stafaði ógn af honum og skaut hann til bana. Lögreglumaðurinn er einnig svartur.

Ekki er hægt að greina á myndbandsupptökunum á hverju Scott heldur. Lögreglan heldur því fram að byssa hafi fundist á honum en fjölskylda hans hélt því fyrst fram að hann hafi verið með bók. Nú segir hún ómögulegt að segja til um á hverju hann hélt út frá upptökum.

The Guardian segir að ekki sé hægt að sjá að Scott dragi hendurnar upp eftir síðunum, beini þeim að lögreglumönnum eða upp í loft áður en hann er skotinn.

Forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton hefur frestað fyrirhugaðri heimsókn sinni til Charlotte í dag til þess að valda ekki frekara álagi á borgina.

Einn mótmælandi lést þegar mótmælin gegn drápinu á Scott fóru úr böndunum í vikunni.

Frétt The Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert