Fyrrverandi ástkona Clintons á fremsta bekk?

Fortíðin virðist elta Bill og Hillary Clinton á röndum.
Fortíðin virðist elta Bill og Hillary Clinton á röndum. AFP

Gennifer Flowers, sem hefur haldið því fram að hafa átt í ástarsambandi við Bill Clinton á 9. áratug síðustu aldar, hefur þegið boð um að sitja á fremsta bekk þegar kappræður Hillary Clinton og Donald Trump fara fram aðfaranótt þriðjudags.

Flowers virðist staðfesta þetta á Twitter þar sem hún segir: „Hæ Donald. Þú veist að ég er í þínu liði og verð pottþétt á kappræðunum!“

Fyrir níu árum sagðist Flowers hins vegar styðja Hillary Clinton. „Ég get ekki annað en viljað styðja eigið kyn,“ sagði hún þá. „Ég hef alls engan áhuga á því að fara aftur af stað og berja á Hillary Clinton.“

Samkvæmt Guardian á boð Flowers til að vera viðstödd kappræðurnar rætur sínar að rekja til erja Trump og milljarðamæringsins Mark Cuban. Á fimmtudag tísti Cuban að hann hefði tryggt sér sæti á fremsta bekk til að fylgjast með Clinton gjörsigra Trump í kappræðunum en á laugardagsmorgun svaraði Trump og sagði að ef Cuban yrði á fremsta bekk myndi hann fá Flowers til að sitja við hlið hans.

BuzzFeed sagði frá því í framhaldinu að Judy Stell, aðstoðarmaður Flowers, hefði staðfest að fyrirsætan fyrrverandi hefði þegið boð Trump.

Flowers komst fyrst í sviðsljósið í janúar 1992, þegar Bill Clinton bauð sig fram til forseta, og sagðist hafa átt í 12 ára ástarsambandi við hann. Clinton hafnaði ásökununum í fyrstu en viðurkenndi árið 1998 að hann hefði átt einn ástarfund með henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert