Segir lögregluna hafa verið skotmark

Tæknimenn lögreglunnar á vettvangi í miðborg Búdapest. Tveir lögreglumenn særðust …
Tæknimenn lögreglunnar á vettvangi í miðborg Búdapest. Tveir lögreglumenn særðust alvarlega er sprengjan sprakk. AFP

Tveir ungverskir lögreglumenn er alvarlega særðir eftir að sprengja sprakk í miðbæ Búdapest á laugardag. Að sögn ungversku lögreglunnar var um heimagerða flísasprengju að ræða sem var ætlað að valda miklum skaða.

„Lögreglumenn okkar voru skotmark árásarinnar og ég lít á þetta sem árás á alla ungversku lögregluna,“ sagði Karoly Papp, yfirmaður ungversku lögreglunnar á fréttamannafundi. Leit stendur nú yfir að þeim sem stóðu að árásinni og er litið á sprenginguna sem morðtilraun að sögn AFP-fréttastofunnar.

Lögreglumennirnir voru í eftirlitsferð um höfuðborgina þegar sprengjan sprakk. Papp sagði henni hafa verið beint sérstaklega gegn þeim, án þess þó að fara út í nánari útskýringu þar á.

Hann tjáði sig ekki um hvort um hryðjuverk væri að ræða en sagði lögreglu nú vera að skoða sjö mögulegar skýringar á því hvað hefði gerst.

Sprengjan hefði hins vegar verið heimatilbúin og fyllt með sprengjuflísum.

Lýst hefur verið eftir meintum árásarmanni sem sagður er vera 20-25 ára gamall, 170 sentímetrar á hæð og talið er að hann hafi verið í bláum gallabuxum, hvítum strigaskóm og með ljósleitan veiðihatt.

„Við munum finna hann og komast að ástæðunum að baki árásinni,“ sagði Papp og tilkynnti að sá sem gæti veitt upplýsingar sem leiddu til handtöku árásarmannsins myndi fá 10 milljón forintur (rúmar fjórar milljónir króna) að launum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert