Veiðiþjófar valda hruni fílastofnsins

Dýralífsverðir í Kenía stafla upp fílabeini sem hald hefur verið …
Dýralífsverðir í Kenía stafla upp fílabeini sem hald hefur verið lagt á. AFP

Fílum í Afríku hefur fækkað um meira en 100.000 á einum áratugi og segir Alþjóðanáttúruverndarsambandið (IUCN) að hrunið í stofninum sé það mesta í aldarfjórðung. Ástæðan er fyrst og fremst stóraukinn veiðiþjófnaður en tap búsvæða fílanna leikur einnig sitt hlutverk.

Matið byggist á 275 athugunum um alla álfuna sem sýnir að heildarfjöldi fílanna er um 415.000. Það er fækkun um 111.000 á áratug. Þetta er sagt í fyrsta skipti í 25 ár sem talning samtakanna á fílum í Afríku leiðir í ljós fækkun yfir alla álfuna.

„Vöxturinn í veiðiþjófnaði fyrir fílabein hófst fyrir um það bil áratug, sá versti sem Afríka hefur mátt þola frá því á 8. og 9. áratugnum, og hefur verið það sem hefur helst valdið fækkuninni,“ segir í yfirlýsingu IUCN.

Stór fundur fer nú fram í Jóhannesarborg í Suður-Afríku um verslun með villt dýr. Þar reyna náttúruverndarsinnar og fulltrúar ríkisstjórna að berja saman alþjóðlegt regluverk til að vernda ýmsar dýrategundir.

Til stendur að fjalla um ýmsar tillögur um hvort herða eða slaka eigi á eftirliti með verslun með fílabein í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert