Ástkonan fyrrverandi mætir en ekki í boði Trumps

Gennifer Flowers var fyrirsæta og sat m.a. fyrir nakin. Hér …
Gennifer Flowers var fyrirsæta og sat m.a. fyrir nakin. Hér er hún árið 1998, eftir að upp komst um samband hennar og Bills Clinton. AFP

Kosningastjóri Donalds Trump segir að framboðið hafi ekki boðið fyrrverandi ástkonu Bills Clinton að vera viðstödd kappræður Trumps og Hillary Clinton í kvöld líkt og Trump sagðist  ætla að gera.

„Við höfum ekki boðið henni formlega og við eigum ekki von á að hún verði þarna sem gestur Trump-framboðsins,“ segir Kellyanne Conway, kosningastjóri Trumps, við CNN.

Mike Pence, varaforsetaefni Trumps, sagði við FOX-fréttastofuna í gær að Trump hefði aðeins verið að gera grín að framboði Clinton með því að segjast ætla að bjóða Flowers. Hann hefði sagt þetta til að sýna fram á að framboð Clinton væri að reyna að dreifa athyglinni frá alvöru kosningamálum.

Trump skrifaði færslu á Twitter um að hann hygðist bjóða Flowers að sitja á fremsta bekk í kappræðunum. The New York Times segir að Flowers hafi staðfest við blaðið að hún verði viðstödd kappræðurnar. „Já, ég verð viðstödd,“ hefur blaðið eftir henni. 

Bill Clinton og Gennifer Flowers áttu í tólf ára ástarsambandi á áttunda og níunda áratugnum. Málið komst í hámæli í kosningabaráttu Clintons árið 1992 en þá neitaði Clinton að hafa átt í sambandi við hana. Flowers hélt þá blaðamannafund og sýndi fram á sambandið með upptökum af samtölum þeirra.

Kosningastjóri Trump var spurður hvort að Trump myndi vekja máls á ástarlífi Bills Clinton í kappræðunum. „Það eru engin plön um að gera það,“ var svarið.

Kappræðurnar í kvöld eru sagðar verða sögulegar. Búist er við því að 100 milljónir manna muni fylgjast með þeim í sjónvarpi.

Frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert