Fannst á lífi eftir viku á reki

Mæðginanna var leitað í nokkra daga. Nú hefur sonurinn fundist …
Mæðginanna var leitað í nokkra daga. Nú hefur sonurinn fundist en móðirin ekki.

Karlmaður fannst á lífi eftir að hafa verið á reki undan ströndum Massachusetts í viku. Móðir mannsins, sem einnig var um borð í báti þeirra, er enn ófundin.

Í frétt Sky-fréttastofunnar kemur fram að Nathan Carman, 22 ára, og móðir hans Linda, 54 ára, hafi lagt af stað í veiðiferð frá höfninni í Rhode Island þann 18. september.

Þau voru í litlum báti sem talinn er hafa sokkið. Strandgæslan segir að sonurinn hafi fundist á reki á gúmmífleka í gær. Það var áhöfn flutningaskips sem kom auga á hann í sjónum. 

Ungi maðurinn er sagður vera heill heilsu. Hins vegar hefur enn ekkert spurst til móður hans. Strandgæslan hóf leit að bátnum er hann skilaði sér ekki í land. Leitinni var hætt á föstudag. 

Flutningaskipið er enn á hafi úti en er væntanlegt til hafnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert