Lögfræðingur sem „skaut stanslaust“

Lögreglu- og sjúkrabílar við verslunarmiðstöðina í Houston þar sem árásin …
Lögreglu- og sjúkrabílar við verslunarmiðstöðina í Houston þar sem árásin átti sér stað í morgun. AFP

Vandræði á lögmannsstofu eru talin kveikjan að því að maður hóf skothríð við sólarupprás fyrir utan verslunarmiðstöð í Houston í Texas í morgun. Lögreglan hefur nú staðfest að níu hafi særst í árásinni. Lögreglan skaut árásarmanninn á vettvangi og er hann látinn.

Frétt mbl.is: Sex fluttir særðir á sjúkrahús

Lögreglustjórinn Martha Montalvo segir að árásarmaðurinn hafi verið lögfræðingur. Hún nafndi ekki nafn hans. Lögreglan segist nú rannsaka hvort að vandræði á lögfræðistofu hans hafi orðið kveikjan að árásinni.

Af þeim níu sem særðust í árásinni voru sex fluttir á sjúkrahús en hlúð var að hinum á vettvangi. Einn er talinn í lífshættu og ástand annars fórnarlambs er sagt mjög alvarlegt.

Sylvester Turner borgarstjóri Houston segir að svo virðist sem að skotárásin tengist sambandi lögfræðingsins við lögfræðistofuna sem hann vann hjá. Það samband hafi „farið út um þúfur.“

Lögreglan telur að maðurinn hafi verið einn að verki. 

Lögreglan var kölluð á vettvang kl. 6.29 í morgun að staðartíma. Er hún kom á staðinn hóf byssumaðurinn að skjóta á lögreglumennina. Í þeim skotbardaga féll byssumaðurinn og var úrskurðaður látinn skömmu síðar. 

Bíll hans fannst á svæðinu og í honum var fullt af vopnum.

Sjónarvottar segja að maðurinn hafi skotið á bíla á ferð. „Hann skaut nánast stanslaust,“ segir  Jaime Zamora, tökumaður hjá sjónvarpsstöð sem varð vitni að árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert