Ráku 87 úr tyrknesku leyniþjónustunni

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heldur ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu …
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heldur ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa rekið 87 starfsmenn leyniþjónustunnar vegna meintra tengsla þeirra við misheppnað valdarán í landinu 15. júlí síðastliðinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem hreinsað er til í svona valdamikilli stofnun í Tyrklandi eftir valdaránið.

Leyniþjónusta landsins vék úr starfi 141 starfsmanni á meðan á innanhússrannsókn stóð vegna hugsanlegra tengsla þeirra við klerkinn Fethullah Gulen sem stjórnvöld í Tyrklandi segja að hafi staðið á bak við valdaránstilraunina.

Af þessum hópi hafa 87 manns núna verið reknir, samkvæmt fréttastofunni Anadoulu. Kærur vegna glæpsamlegs athæfis hafa verið lagðar fram gegn 52 þeirra.

Fethullah Gulen á heimili sínu í Saylorsburg í Pennsylvaníu í …
Fethullah Gulen á heimili sínu í Saylorsburg í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. AFP

Tyrkneska lögreglan hefur einnig handtekið 41 manneskju úr góðgerðarsamtökunum Kimse Yok Mu? (Er einhver þarna úti?) vegna meintra tengsla við Gulen.

Alls hafa tyrknesk stjórnvöld rekið tugi þúsunda ríkisstarfsmanna eftir valdaránstilraunina.

Tyrkneska leyniþjónustan var harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki varað stjórnvöld við því að valdarán væri í uppsiglingu.

Þeir 87 sem voru reknir úr leyniþjónustunni fá ekki störf innan annarra ríkisstofnana í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert