Rasistar á bak við sprengjutilræði í Dresden

AFP

Sprengjur sprungu við mosku og ráðstefnumiðstöð í Dresden í austurhluta Þýskalands í nótt. Enginn særðist í tilræðunum en lögregla telur að þjóðernissinnar og útlendingahatarar standi á bak við þau.

Öfgaþjóðernissinnar eru mjög áberandi í Dresden og hafa þeir verið áberandi í borginni undanfarin misseri á sama tíma og hælisleitendum hefur fjölgað í Þýskalandi.

Þrátt fyrir að enginn hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni þá gerum við ráð fyrir að um útlendingahatur sé að ræða,“ segir lögreglustjórinn í Dresden, Horst Kretzschmar. Hann segir að lögreglan telji að árásin tengist sameiningardeginum, 3. október, deginum þar sem Þjóðverjar fagna sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands (Tag der Deutchen Einheit).

Um heimatilbúnar sprengjur var að ræða og sprungu þær um tvö leytið í nótt. Hurð moskunnar skemmdist en presturinn (imam) og fjölskylda hans var inni í moskunni. Eins þurfti að rýma að hótel að hluta þar sem rástefnumiðstöð borgarinnar er til húsa. 

And-íslömsku samtökin Pegida eiga rætur sínar að rekja til Dresden en liðsmenn samtakanna hafa barist hatramlega gegn fjölgum flóttamanna í Þýskalandi. Á mánudag verður því fagnað að 26 ár eru liðin frá sameiningu Þýskalands og munu bæði kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forseti Þýskalands, Joachim Gauck, taka þátt í hátíðarhöldum í Dresden.

Fatih Camii moskan í Dresden.
Fatih Camii moskan í Dresden. AFP
Hurð moskunnar er illa farin.
Hurð moskunnar er illa farin. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert