Peres: Hetja eða stríðsglæpamaður

Ísraelsmenn sameinuðust í sorg í dag, þegar fregnir bárust af fráfalli Shimon Peres, fyrrverandi forseta og síðasta „stofnanda Ísraelsríkis“. Meðal Palestínumanna voru viðbrögðin önnur, eftir áralöng átök þjóðanna tveggja. Á götum borga Palestínu var Peres uppnefndur „stríðsglæpamaður“ og sakaður um fjöldamorð.

Frétt mbl.is: Shimon Peres látinn

Í miðborg Tel Aviv grét sextug kona. Hún sagðist ganga til vinnu með sorg í hjarta. „Hann var einn af þeim bestu. Þetta er hræðilegur dagur, dagur sorgar, dagur til að syrgja,“ sagði hún.

Hlé var gert á útvarps- og sjónvarpsdagskrá þegar greint var frá fregnunum snemma dags, og skipt á milli sérstakra útsendinga og efnis úr safni. Í útsendingunum var kafað í sögu Ísrael, en hluti hennar hverfur með fráfalli Peres.

Seinnipart dags hafði sorg Ísraelsmanna ekki orðið til þess að fólk safnaðist saman líkt og gerðist þegar forsætisráðherrann Yitzhak Rabin var myrtur árið 1995. Það má e.t.v. rekja til þess að fráfall Peres átti sér nokkurn aðdraganda, en hann barðist við veikindi síðust árin.

Þessi mynd af Peres var tekin í maí á þessu …
Þessi mynd af Peres var tekin í maí á þessu ári, þegar hann tók á móti forsætisráðhera Frakklands. Peres lést í dag, tveimur vikum eftir alvarlegt heilablóðfall. AFP

„Frá himnum“

„Hann var sendur frá himnum, afar góður maður sem lét okkur líða vel,“ segir Kalman Belhassan, á göngu yfir Rabin-torg í Tel Aviv. Belhassan er á níræðisaldri.

Á sama torgi efnir kennari til skyndikennslustundar um Peres, sem sinnti nær öllum háttsettum stöðum á stjórnmálaferli sínum og hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Rabin og Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna.

Peres var virkur allt til hinsta dags og skráði sig fyrir Snapchat-aðgangi þegar hann fagnaði 93 ára afmæli sínu.

Peres, þá utanríkisráðherra, Yitzhak Rabin forsætisráðherra og Yasser Arafat, leiðtogi …
Peres, þá utanríkisráðherra, Yitzhak Rabin forsætisráðherra og Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, taka á móti Friðarverðlaunum Nóbels í Osló árið 1994. AFP

„Í lífinu hef ég haft tvær fyrirmyndir: föður minn og Shimon Peres. Hann var hetja,“ segir jógakennarinn Chemi Weber í samtali við AFP.

Weber er meðal þúsunda Ísraelsmanna sem hyggjast heimsækja Jerúsalem á morgun, þar sem kista forsetans fyrrverandi verður til sýnis við þinghúsið.

Ísraelar vildu ekki hallmæla Peres á dánardegi hans en á meðan hann var á lífi var hann, ásamt Rabin, harðlega gagnrýndur af þjóðernissinnu sem fyrirlitu Oslóar-samkomulagið sem mennirnir tveir gerðu við Palestínumenn.

„Ég kem úr hægrisinnaðri fjölskyldu, gjörólíkum flokk en hans, en ég virði hann. Hann gerði mikið fyrir Ísrael,“ segir Emmanuel Kipnisch frá Tel Aviv.

Peres ásamt Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og Hosni Mubarak, …
Peres ásamt Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og Hosni Mubarak, þáverandi forseta Egyptalands. Hussein, konungur Jórdan og Boris Yeltsin, þáverandi Rússlandsforseti, standa til hliðar. AFP

„Leyfið honum að fara til helvítis“

Í Palestínu var þessu öfugt farið; þar var erfitt að finna einhvern sem hafði eitthvað gott að segja um leiðtogann.

Afstaða Hossam Qiblaoui, 52 ára, var dæmigerð en hann sagði Peres „glæpamann, slátrara.“

Tamer Daraghmeh, 47 ára íbúi Ramallah sakaði Peres um að hafa verið samsekur um „mörg fjöldamorð. Hann gerði margar konur að ekkjum og börn munaðarlaus.“

Ramallah er heimili palestínsku heimastjórnarinnar, sem varð til með undirritun Oslóar-samkomulagsins.

Saber Farraj sagðist reiður yfir því að Peres væri hampað sem „manni friðar“ og benti á að hann hefði verið einn af lykilmönnunum að baki kjarnorkuáætlun Ísraelsmanna.

„Hvernig getur maður friðar myrt börn? Myndi maður friðar smíða kjarnorkuvopn?“

„Hann fékk Friðarverðlaun Nóbels en hann var ekki maður friðar,“ segir Abdessalam al-Hau, sem býr í Gaza.

„Leyfið honum að fara til helvítis,“ segir Hossam al-Hajouj, sem jafnframt er búsettur í Gaza. Þar hafa Palestínumenn háð þrjú stríð við Ísrael frá 2008.

Peres í félagsskap Hollywood-leikkonunnar Sharon Stone.
Peres í félagsskap Hollywood-leikkonunnar Sharon Stone. AFP

Mouayyed Odeh, 28 ára leikari sem situr við tedrykkju, segir Palestínumenn hins vegar þurfa að horfast í augu við ákveðinn sannleika.

„Enginn arabaleiðtogi hefur gert það fyrir land sitt sem Peres gerði fyrir sitt,“ segir hann.

„Hann var einn stofnenda þess sem þeir kalla Ísraelsríki. Allt sem hann gerði gegn Palestínumönnum gerði hann sannfærður um að hann væri að gera það fyrir ríkið sitt og til að setjast að á þessu landi fyrir fullt og allt.“
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert