Lestarslys í Bandaríkjunum

Yfir hundrað manns eru slasaðir og þrír eru sagðir látnir.
Yfir hundrað manns eru slasaðir og þrír eru sagðir látnir. /AFP

Slys varð á lestarstöð í borginni Hoboken í New Jersey-fylki í Bandaríkjunum í dag. Þrír eru sagðir látnir og yfir hundrað slasaðir og fleiri eru innlyksa vegna slyssins.

Uppfært kl. 14:43

Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang en myndir sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna gríðarlegar skemmdir sem orðið hafa vegna slyssins. Fram hefur komið í fjölmiðlum á svæðinu að farþegalest hafi keyrt í gegnum hindranir og „inn á móttökusvæði“ lestarstöðvarinnar. Ekki virðist liggja ljóst fyrir að svo stöddu hvað olli slysinu.

/AFP

Sjónarvottur sagði við BBC að svo virðist sem lestin hafi farið algjörlega út af brautarsporinu. „Ég var ekki í lestinni en ég kom rétt eftir að þetta gerðist. Það rann vatn niður af þakinu of fólk var að klifra út um gluggana.“

„Fólk sat á jörðinni og blóð lak úr höfðum þeirra. Það voru margir slasaðir,“ sagði sjónarvottur við BBC.

/AFP

Uppfært kl 15:00

Guardian hefur eftir Jennifer Nelson, talskonu New Jersey Transit sem annast lestasamgöngur í New Jersey, að nokkrir farþeganna séu alvarlega slasaðir en slysið varð á háanna tíma um klukkan 08:45 að staðartíma. Þá sagði Nelson við Fox fréttastofuna að um 250 farþegar væru yfirleitt um borð í lestinni á þessum tíma dags.

Lestarsamgöngur liggja niðri til og frá borginni sem stendur en borgin er í um 30 mínútna fjarlægð frá Manhattan með lest. Í frétt Guardian kemur fram að yfir 30 manns hafi slasast í lestarslysi sem varð á sömu lestarstöð árið 2011.

/AFP

Uppfært kl. 15:34

Samkvæmt NBC-fréttastöðinni hafa þrjú dauðsföll verið staðfest og er fjöldi slasaðra á milli 75 og 100. Um er að ræða eina fjölförnustu lestarstöð í nágrenni New York en um 50.000 farþegar eru sagðir hafa viðkomu á lestarstöðinni dag hvern.

Farþegi sem var um borð í lestinni segist hafa staðið aftarlega í öðrum vagni lestarinnar þegar hún skall á brautarpallinn og rakst í leiðinni á tvo burðarstólpa sem varð til þess að þakið seig niður.

„Þetta voru nokkrar sekúndur en leið eins og heil eilífð,“ sagði farþeginn. „Ég sá konu sem var skorðuð föst undir steypunni. Það blæddi úr mörgum og einhverjir grétu.“ Farþeginn segir fyrsta og annan vagn lestarinnar hafa verið yfirfulla en fólkið braut sér leið út úr lestinni í gegnum gluggana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert