Sakaðar um að skjóta í hnéskeljar

Lögreglumaður frá Bangladesh.
Lögreglumaður frá Bangladesh. AFP

Mannréttindavaktin hefur sakað öryggissveitir í Bangladess um að hafa brotið hnéskeljarnar á meðlimum stjórnarandstöðunnar og stuðningsmanna hennar með því að skjóta þá vísvitandi í hnén og halda því síðan ranglega fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.

Asaduzzaman Khan, innanríkisráðherra Bangladesh, hefur vísað ásökununum á bug og segir að lögreglan skjóti eingöngu glæpamenn þegar engin önnur úrræði eru eftir.

Í 45 blaðsíðna skýrslu Mannréttindavaktarinnar er vitnað í fórnarlömb sem segja frá því að þau hafi verið skotin af lögregluþjónum án þess að hafa ögrað þeim á nokkurn hátt. Þeir hafi í framhaldinu sagst hafa skotið þau í sjálfsvörn.

Svipaðar aðferðir og IRA

„Öryggissveitir í Bangladesh hafa í mörg ár drepið fanga sína og látið líta út fyrir að þeir hafi fallið í skotbardaga,“ sagði Brad Adams, framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar í Asíu.

„Núna eru þeir að nota svipaðar aðferðir og Írski lýðveldisherinn (IRA), notaði með því að brjóta hnéskeljar fólks eftir að það hefur verið handtekið. Ástæðan virðist vera sú að þau tilheyri eða styðji stjórnarandstöðuflokk.“

Að sögn Mannréttindavaktarinnar eru í skýrslunni sannanir og vitnisburðir 25 einstaklinga, sem flestir eru meðlimir eða stuðningsmenn Þjóðernisflokks Bangladess, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, og íslamistaflokknum Jamaat-e-Islami, sem er einnig í stjórnarandstöðu.

Aflima þurfti nokkur fórnarlambanna eftir að þau höfðu verið skotin í hnéskeljarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert