Vilja ná yfirráðum í dönskum fangelsum

Yfirvöld telja árásunum ætlað að vekja ótta hjá fangavörðum.
Yfirvöld telja árásunum ætlað að vekja ótta hjá fangavörðum. AFP

Fjöldi danskra fangavarða hefur undanfarna mánuði orðið fyrir árásum bæði innan og utan fangelsismúranna. Yfirmaður dönsku fangelsismálastofnunarinnar,  Kim Østerbye , telur glæpagengi standa að árásunum og að þeim sé ætlað að valda ótta hjá fangavörðum.

Østerbye sagði í þættinum Krimicentralen, á sjónvarpsstöðinni TV3 í gærkvöldi, að vandinn virtist sérstaklega tengjast glæpagengjunum Black Army og Loyal to Familia.

„Þeir eru að reyna að ákveða sjálfir hverjar aðstæður þeirra eiga að vera í stóru fangelsunum og beita við það bæði starfsfólk og samfanga sína ofbeldi, sem dregur úr styrk fangavarðanna," sagði Østerbye. Hann bætti við að eitt alvarlegasta atvikið hafa átt sér stað þegar fangavörður var skotinn í fótinn.

Danska lögreglan er nú komin með myndbandsupptökur af mögulegum árásarmönnum, sem hún telur annað hvort vera meðlimi Loyal to Familia eða Black Army.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert