Drápu hermenn og stálu sjúkrabíl

Herbíll ekur um götur Mexíkó.
Herbíll ekur um götur Mexíkó. AFP

Byssumenn sátu fyrir bílalest hermanna í norðvesturhluta Mexíkó í nótt, drápu fjóra hermenn og stálu sjúkrabíl sem var að flytja særðan glæpamann á sjúkrahús.

Níu manns til viðbótar, þar á meðal sjúkraflutningamaður, særðust í árásinni sem var gerð í Culiacan, höfuðborg ríkisins Sinaloa. Þar eru bækistöðvar eiturlyfjahrings sem Joaquin „El Chapo“ Guzman stjórnar en hann situr nú í fangelsi.

Grunaði glæpamaðurinn særðist í skotárás í sveitarfélaginu Badiraguato, þar sem Guzman fæddist, og var sjúkrabílnum veitt herfylgd þaðan.  

Byssumennirnir höfðu beðið í nokkrum farartækjum áður en þeir gerðu árásina.

„Við höfum miklar áhyggjur. Þetta var verk hugleysingja,“ sagði hershöfðinginn Vargas Langeros.

Hann vildi ekkert segja til um hvort eiturlyfjahringur Guzman eða annað glæpagengi hafi borið ábyrð á verknaðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert