Háskólar framkvæmi meydómspróf

Píramídarnir í Giza, í útjaðri Kaíró. Þingmaðurinn Ilhamy Agina lagði …
Píramídarnir í Giza, í útjaðri Kaíró. Þingmaðurinn Ilhamy Agina lagði til að óskertur meydómur yrði skilyrði þess að egypskar konur fengju háskólavist. KHALED DESOUKI

Mikið grín hefur í dag verið gert að egypskum þingmanni á samfélagsmiðlum, eftir að hann sagði háskóla eiga að láta kvenstúdenta undirgangast rannsókn á því hvort þær væru hreinar meyjar.

Þingmaðurinn  Ilhamy Agina sagði í viðtali við egypskt dagblað að óskertur meydómur ætti að vera  skilyrði þess að konur fengju háskólavist.

Sagði Agina þetta vera eina leið til þess að draga úr svo nefndum  „hefðbundnum“ og óskjalfestum hjónaböndum sem höfðuðu til þeirra egypsku ungmenna sem ekki hefðu efni á formlegri hjónavígslu.

„Hver sú stúlka sem hefur háskólanám verður að gangast undir rannsókn sem sannar að hún er hrein mey,“ er haft eftir Agina í viðtali við dagblaðið Youm 7.

Ummæli hans hafa sætt miklu háði á samfélagsmiðlum. „Sagði ég ykkur ekki að það er enn langt á niður á botninn og þetta á enn eftir að versna,“ skrifaði mannréttindalögfræðingurinn Gamal Eid í Twitter-skilaboðum.

„Við erum með þingmann sem er haldinn kynlífsþráhyggju,“ skrifaði frjálsyndi fjölmiðlamaðurinn Khaled Dawoud.

Agina sagði AFP-fréttastofunni hins vegar í dag að orð hans hefðu verið mistúlkuð og hann myndi ekki ræða við fjölmiðla. „Ég hef sætt árásum síðan í gær frá fólki sem er í uppnámi og þannig. Þetta var ekki krafa, þetta var uppástunga. Það mikill munur á kröfu og uppástungu,“  sagði hann.

Sagði þingmaðurinn blaðamann Youm 7 hafa spurt sig með hvaða hætti stjórnvöld gætu tekið þátt í að binda endi á þessi óskjalfestu hjónabönd og kvaðst hann hafa stungið upp á meydómsprófi.  „Ég sagði að það væri ekki réttur stjórnvalda að spyrja mann eða konu hvort þau hafi átt í slíku hjónabandi,“ sagði hann. „En kannski, kannski ... bara sem uppástunga sem kann að vera tekinn upp eða ekki, þá gætu stjórnvöld sagt háskólasjúkrahúsum að framkvæma lyfja- og meydómsprófanir. Síðan geta háskólayfirvöld sagt foreldrum stúdentanna frá niðurstöðunni.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Agina lætur umdeild ummæli falla, en hann hefur áður lýst því yfir að hann styðji umskurð kvenna, sem er enn framkvæmdur víða í Egyptalandi þrátt fyrir að vera bannaður með lögum.

„Við erum þjóð þar sem karlar eiga við risvandamál að stríða .... ef við hættum að umskera konur þá þurfum við sterkari karla,“ var skoðun Agina á því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert