Meistaraverk fundust við húsleit

Tvö málverk eftir hollenska myndlistarmanninn Vincent  Van Gogh sem var stolið á listasafni í Amsterdam árið 2002. Ítalska lögreglan lagði hald á myndirnar við húsleit hjá Camorrra mafíunni í Napólí.

Í tilkynningu frá Van Gogh safninu í Amsterdam kemur fram að rannsókn málsins hafi staðið lengi en þjófarnir brutust inn á safnið vopnaðir stiga og sleggjum. Málverkin eru aðeins brot af því sem lögreglan lagði hald á en munir fyrir milljónir evra fundust við húsleit í Castellammare di Stabia, skammt frá Pompeii. Húsleitin var gerð í tengslum við kókaínviðskipti sem Camorra mafían tengist.

Þjófnaðurinn á málverkunum, sem ekki er hægt að meta til verðs, vakti upp spurningar um öryggisgæslu á helstu listasöfnum heims. Þjófarnir brutust inn í gegnum þak safnsins aðfararnótt 7. desember 2002 og notuðu sleggjur til þess að brjóta rúðu á safninu, fóru inn í aðalsalinn og tóku verkin með sér.  Sérfræðingar í öryggismálum stóðu á gati þegar í ljós kom að verkunum hafði verið stolið þrátt fyrir að verðir hafi verið að störfum í safninu og infrarauður hreyfiskynjari í húsakynnum safnins.

Hvorugt verkið var tryggt og höfðu þau verið fengin að láni frá hollensku ríkisstjórninni. Tveir Hollendingar voru handteknir fyrir þjófnaðinn en þeir hafa alltaf haldið fram sakleysi sínu.

Van Gogh safnið segir í tilkynningu að enn sé óljós hvenær verkunum verði skilað til Amsterdam en að þau væru í mjög góðu ástandi, að því er segir í frétt BBC.

Vincent Van Gogh (1853-1890) er talinn einn af helstu listamönnum Hollands ásamt Rembrandt. Annað verkið Seascape at Scheveningen var málið árið 1882 þegar listamaðurinn dvaldi í Haag.

Hitt verkið málaði Van Gogh fyrir móður sína af kirkjunni í Nuenen árið 1884 en að hluta fyrir föður sinn sem tók við starfi prests við kirkjuna árið 1882. Þegar faðir hans lést árið 1884 bætti Van Gogh við kirkjugestum, þar á meðal nokkrum konum sem eru með sorgarklúta, inn á myndina. Van Gogh framdi sjálfsvíg í Frakklandi árið 1890.

Frétt BBC

The Beach At Scheveningen During A Storm eftir Vincent Van …
The Beach At Scheveningen During A Storm eftir Vincent Van Gogh. AFP
Congregation Leaving the Reformed Church in Nuenen, verk eftir Vincent …
Congregation Leaving the Reformed Church in Nuenen, verk eftir Vincent Van Gogh. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert