Þriggja ára milljónamæringur

Það mætti til dæmis kaupa ansi mörg hlaupahjól handa þriggja …
Það mætti til dæmis kaupa ansi mörg hlaupahjól handa þriggja ára gutta fyrir 83 milljónir. mbl.is/Ómar

Þriggja ára drengur vann nýverið eina milljón nýsjálenskra dala í happdrætti, en barnið er yngsti vinningshafi í svokölluðu Bonus Bonds-happdrætti. Upphæðin samsvarar um 83 milljónum króna.

Greint er frá þessu á nýsjálensku fréttasíðunni National. Þar segir að fjölskyldan hafi verið nýkomin úr fríi þegar þau fengu fréttirnar, en drengurinn var vinningshafi ágústmánaðar.

Bonus Bonds er fjárfestingarleið, sem er í eigu ANZ-bankans, sem er í boði í Nýja-Sjálandi. Þeir sem fjárfesta hjá fyrirtækinu lenda í potti sem dregið er úr mánaðarlega. Hæsti vinningurinn er ein milljón nýsjálenskir dalir og elsti vinningshafinn í sögu happdrættisins var 92 ár gamall.

Foreldrarnir stofnuðu reikning í nafni drengsins þegar hann fæddist, en upphaflega fjárfestingin, sem nam 250 nýsjálenskum dölum (um 20.000 kr.), var gjöf frá frænda drengsins. 

National ræddi við móður drengsins, en fjölskyldan hefur farið fram á nafnleynd. „Maðurinn minn var bókstaflega að pumpa hnefanum í loftið þegar hann var í símanum,“ sagði hún. 

„Um leið og hann lagði á sagði hann mér frá þessu, og við fórum að hlaupa um, við vorum svo glöð. Þetta var algjörlega stund þar sem maður er bókstaflega hoppandi kátur,“ bætti hún við. 

„Okkur hefur ávallt þótt drengurinn okkar vera mjög sérstakur. Hann fæddist á jóladag, sem er alveg einstakt. Og núna er hann yngsti Bonus Bonds-vinningshafi í sögunni,“ sagði hún kampakát.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert