Þúsundir innlyksa í bæ í Suður-Súdan

Tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín í …
Tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín í Suður-Súdan. Mynd/AFP

Um 100.000 íbúar og flóttamenn í suðursúdanska bænum Yei eru innlyksa. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa stjórnarhermenn umlukið bæinn og takmarka þeir nú ferðir fólks til og frá bænum.

Bærinn Yei er nálægt landamærum Suður-Súdans við Úganda og Austur-Kongó, um 150 km suðvestur af höfuðborginni Juba. Svæðið hefur að miklu leyti staðið utan við átök í landinu en frá því í júlí hefur ástandið þar versnað mikið. Talsmaður Flóttamannastofnunarinnar, William Spindler, telur líklegt að ástæður fyrir komu stjórnarhermanna megi rekja til gruns þeirra um að þar sé að finna stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar.

Spindler segir að rúmlega 30.000 manns hafi leitað skjóls í bænum í byrjun september, eftir að árásir voru gerðar á heimaslóðir þeirra. Bættust þeir í hóp þúsunda annarra sem komið hafa til Yei síðan um miðjan júlí. Flóttamannastofnun heimsótti Yei í lok september og segir Spindler að ástandið sé mjög alvarlegt. Auk 60.000 íbúa bæjarins hafi fleiri þúsund flóttamenn komið sér fyrir í auðum húsum og kirkjum í bænum. Nú standi fólkið frammi fyrir miklum skorti á mat og lyfjum. Mannúðarsamtök vona að hægt verði að koma hjálpargögnum til bæjarins sem fyrst en vita ekki enn hvenær það gæti orðið.

Suður-Súdan hlaut sjálfstæði í júlí 2011 en aðeins tveimur og hálfu ári síðar brast út borgarastyrjöld í landinu. Eftir að átök hófust að nýju um miðjan júlí hafa 200.000 íbúar flúið land. Frá upphafi átakanna hafa rúmlega milljón flóttamenn því yfirgefið landið. Um 1,6 milljónir í viðbót eru á landflótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert