Eiginkonu seðlabankastjóra rænt

AFP

Seðlabankastjóri Nígeríu, Godwin Emefiele, staðfesti í dag fréttir um að eiginkonu hans hafi verið rænt og haldið af mannræningjunum í sólarhring.  Hann sagðist þakka guði almáttugum fyrir að lífi ástkærrar eiginkonu hafi verið þyrmt en henni var bjargað úr haldi mannræningja í gærkvöldi.

Margaret Emefiele var rænt á þjóðveginum frá Benin borg í Edo ríki á leið til Agbor borgar í Delta-ríki, á fimmtudag. Fimm öðrum var einnig rænt, það er bílstjóra hennar og fjórum konum sem hún var á ferðalagi með. Öryggisverðir björguðu þeim seint í gærkvöldi og var farið með þau á lögreglustöðina í Asaba. 

Emefiele hefur gegnt embætti seðlabankastjóra frá því í mars 2014 en hann tók við starfinu af Lamido Sanusi sem var rekinn úr starfi. Mannrán eru gríðarlega algeng í Nígeríu enda fátækt mikil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert