Varð fyrir kynferðislegri áreitni og sagt upp

Park Hyatt Paris-Vendome.
Park Hyatt Paris-Vendome. AFP

Ræstingakona sem varð fyrir kynferðislegri áreitni á lúxushóteli í París af hálfu prins frá Katar árið 2010 fær 57 þúsund evrur, sem svarar til 7,3 milljóna króna, í bætur. Það er hótelið og starfsmannaleigan sem þurfa að greiða henni bæturnar, að því er fram kemur í niðurstöðu dómara.

Hótelið, Park Hyatt Paris-Vendome, þarf að greiða konunni 30 þúsund evrur en starfsmannaleigan þarf að greiða 27 þúsund evrur. 

Ræstingakonan, sem er frá Gíneu, er 33 ára í dag en hún óskaði eftir nafnleynd við dómshaldið. Hún var rekin úr starfi í janúar 2011 eftir að hafa neitað flutningi á annað hótel. Þá hafði hún reynt að fremja sjálfsvíg og hafði ítrekað verið frá vinnu vegna áfallastreituröskunar í kjölfar áreitni af hálfu prinsins árið 2010. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að brottvikningin hafi verið ólöglegt og að konunni hafi verið mismunað í starfi. Hótelið hafi einnig brotið á henni með því að tilkynna ekki um árásina strax til lögreglu. Vegna þess tókst prinsinum að flýja úr landi daginn eftir.

Forsvarsmenn hótelsins eru mjög ósáttir við niðurstöðuna og ætla að áfrýja en dómurinn féll í París í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert